Fimm af átta í umhverfishópnum. Ljósm. Eiríkur Karl Bergsson

Síldarvinnslan hefur ráðið átta ungmenni til starfa í umhverfishópi í Neskaupstað. Í hópnum eru sjö sem eru á sextánda ári og síðan flokksstjóri sem er átján ára. Umsjónarmaður með störfum hópsins er Eiríkur Karl Bergsson. Heimasíðan ræddi við Eirík og spurði hann um helstu verkefni hópsins. “Hópurinn sinnir snyrtingu á umhverfi, málningarvinnu og þrifum. Verulegur hluti vinnunnar er að halda lóðum fyrirtækisins snyrtilegum. Það þarf að slá þær, hreinsa beð og snyrta trjágróður. Þá þarf víða að taka til á lóðunum og tryggja að þær séu til fyrirmyndar. Hópurinn hóf störf eftir sjómannadagshelgina og vinnan fer vel af stað. Þetta eru hörkuduglegir krakkar sem er virkilega gaman að vera í samskiptum við. Það eru alltaf næg verkefni fyrir svona hóp og verkefnin eru býsna fjölbreytt,” segir Eiríkur.

Unnið að snyrtingu við minningareit Síldarvinnslnnar.
Ljósm. Eiríkur Karl Bergsson

Það þarf að hugsa um stórar lóðir við starfsstöðvar Síldarvinnslunnar.
Ljósm. Eiríkur Karl Bergsson