Trollið komið inn á dekk á Jóhönnu Gísladóttur GK.
Ljósm. Einar Ólafur Ágústsson

Vísistogarinn Jóhanna Gísladóttir GK er að landa í Hafnarfirði í dag en þangað var flúið undan veðri. Heimasíðan ræddi stuttlega við Einar Ólaf Ágústsson skipstjóra og spurði um gang veiðanna. “Við erum að landa í Hafnarfirði núna og ætlum að bíða af okkur yfirstandandi brælu þar. Aflinn er rúmlega 40 tonn eftir rúman sólarhring á miðunum. Við lönduðum rúmlega 50 tonnum í Grindavík á þriðjudaginn eftir að hafa verið þrjá sólarhringa á miðunum. Að undanförnu höfum við verið að veiðum í Kolluálnum. Við höfum verið að eltast við þorsk sem er að ganga þarna upp. Aflinn hefur mestmegnis verið þorskur, aðeins karfablandaður. Já, við ætlum að leyfa honum að blása úr sér mesta æsingnum og síðan munum við kíkja út á miðin á ný,” sagði Einar Ólafur.