
Starfsfólk Síldarvinnslusamstæðunnar kom til landsins í gær og í fyrradag að lokinni frábærri árshátíðarferð til Sopot í Póllandi. Nú eru öll skip samstæðunnar farin til veiða að Barða NK undanskildum en hann mun líklega halda til síldveiða fyrir vestan land fljótlega. Í dag hófu bæði frystihús og salthús Vísis í Grindavík vinnslu, en fiskiðjuverið í Neskaupstað bíður eftir að fá síld að vestan.
Togarar Bergs – Hugins í Vestmannaeyjum, Bergey VE og Vestmannaey VE, héldu til veiða í gær og þegar þetta er skrifað eru þeir báðir að toga á Víkinni.
Gullver NS hélt til veiða frá Seyðisfirði á mánudagskvöld og er að veiðum á Austfjarðamiðum.
Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, voru úti fyrir suðausturlandi í morgun og krókaaflamarksbáturinn Fjölnir GK var kominn í róður frá Skagaströnd. Vísistogarinn Jóhanna Gísladóttir GK var að karfaveiðum í Víkurálnum.
Frystitogarinn Blængur NK hélt til veiða frá Neskaupstað. Hann hóf veiðarnar á Tangaflakinu en var kominn á Gerpisgrunn í morgun.
Beitir NK og Börkur NK eru á síldarmiðunum fyrir vestan land og hafa veiðarnar farið heldur rólega af stað í Jökuldýpinu og Kolluálnum.
Á þessari upptalningu sést glögglega að öll starfsemi er fljót að komast í fullan gang að lokinni eftirminnilegri árshátíðarferð.