Veiðar uppsjávarveiðiskipa Síldarvinnslunnar gengu vel á nýliðnu ári en vissulega hafði loðnuleysið skýr áhrif á útgerð þeirra. Heildarafli skipanna þriggja var 134.828 tonn og samanstóð hann af makríl, norsk-íslenskri síld, íslenskri sumargotssíld og kolmunna. Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, segir að ekki sé hægt að vera annað en sáttur við aflabrögðin á árinu 2024. “Veiðarnar gengu afar vel en auðvitað er loðnunnar sárt saknað. Makrílvertíðin gekk að óskum og er veiðisamstarf skipanna lykilþáttur í því. Nú er komin góð reynsla á samstarf skipa við makrílveiðarnar og ríkir almenn ánægja með það. Veiðar á norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld gengu vel og það sama má segja um kolmunnaveiðarnar. Það veiddist vel af kolmunna í færeyskum sjó, niðri á Rockall og einnig í haust í Rósagarðinum. Nú vonum við bara að loðnuleitin síðar í þessum mánuði beri árangur og menn þurfi ekki að upplifa annað loðnuleysisár,” sagði Grétar.
Hér á eftir er birt yfirlit um makríl-, síldar-, og kolmunnaafla Síldarvinnsluskipanna Barða NK, Beitis NK og Barkar NK á árinu 2024:
Barði | Beitir | Börkur | |
Kolmunni | 22.981 | 34.178 | 33.653 |
Makríll | 5.182 | 5.737 | 7.017 |
Norsk-íslensk síld | 1.418 | 5.828 | 5.729 |
Íslensk sumargotssíld | 820 | 5.396 | 6.533 |
Samtals á árinu veiddi Barði NK 30.409 tonn, Beitir NK veiddi 51.241 tonn og Börkur NK 53.178 tonn.