Barði NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1.320 tonn af makríl. Heimasíðan heyrði hljóðið í Runólfi Runólfssyni skipstjóra en hann er ánægður með gang makrílvertíðarinnar. “Þetta gengur þokkalega og miklu betur en menn bjuggust við. Spáð hafði verið að enginn makríll myndi ganga inn í íslenska lögsögu en það hefur svo sannarlega ekki ræst. Það er æðislegt að veiðin skuli fara fram innan lögsögunnar og það styrkir okkar stöðu gagnvart öðrum þjóðum sem leggja stund á veiðar úr stofninum. Menn eru ánægðir með stöðu mála og það er ekki annað hægt. Fiskurinn sem fæst er bæði stór og feitur og hinn fallegasti, en hann sést illa á tækjum. Hann heldur sig gjarnan í smáum blettum en hann er fljótur í förum þannig að blettirnir hverfa á augabragði. Það þarf semsagt talsvert að hafa fyrir veiðunum en það er ekki hægt að kvarta. Nú erum við að koma til löndunar með rúm 1.300 tonn og það er alveg hreinn makríll. Það voru þrjú skip sem veiddu þennan afla í samstarfi á einum sólarhring. Það eru fimm skip í samstarfinu og auk okkar voru Beitir NK og Vilhelm Þorsteinsson EA á miðunum, en Börkur NK var að landa í Neskaupstað og Margrét EA í Færeyjum. Í þessum túr vorum við að toga í sex til sjö tíma en skipin hafa stundum togað upp í fimmtán tíma. Löndun á aflanum mun hefjast síðar í dag þegar þrifum á fiskiðjuverinu er lokið eftir vinnslu á aflanum sem Börkur kom með” segir Runólfur.