
Vestmannaey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Aflinn var mjög blandaður; þorskur, ýsa, ufsi og rauðspretta. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri segir að vertíðarfiskurinn sé ekki enn kominn á hefðbundin vertíðarmið. ”Við hófum veiðar í túrnum á Planinu vestan við Eyjar en færðum okkur síðan á Landsuðurhraunið í Háfadýpinu. Á Hrauninu voru tekin tvö hol en að því loknu færðum við okkur á Pétursey og Vík og þar var túrinn kláraður. Það fóru þrír dagar í veiðiferðina og það var sannast sagna enginn kraftur í veiðinni. Fiskurinn virðist halda sig mjög grunnt og hefur ekki enn fært sig á hin hefðbundnu vertíðarmið. Það er vel veitt á línu og snurvoð uppi í landsteinum. Menn geta velt fyrir sér ástæðum þessa en líklega er minna æti á miðunum nú en oft áður. Í síðustu viku kom gott skot á Ingólfshöfðanum en þá var loðna þar á ferðinni. Við þurfum að hafa töluvert fyrir því að ná í fiskinn eins og er en síðan getur þetta breyst nánast eins og hendi sé veifað,” sagði Birgir Þór.