
Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi í heimahöfn í Eyjum á sunnudaginn. Heimasíðan sló á þráðinn til Birgis Þórs Sverrissonar skipstjóra og spurði hvenrig túrinn hefði verið. “Það var ágæt veiði en aflinn var að mestu ýsa. Við byrjuðum á Víkinni og síðan var farið á Ingólfshöfðann. Túrinn tók rúmlega tvo sólarhringa og það var blíðuveður allan tímann. Haldið var til veiða á ný strax að löndun lokinni. Nú er vertíðarbransinn endanlega búinn og við tekur hið árlega skrap. Ég geri ráð fyrir að sótt verði á suðausturmið á næstunni. Við stefnum að því að landa á miðvikudagskvöld á ný,” sagði Birgir Þór.