Vestmannaey VE kemur til löndunar. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey VE og Bergur VE landa bæði fullfermi í dag. Vestmannaey landar í heimahöfn en Bergur landar í Neskaupstað. Heimasíðan sló á þráðinn til skipstjóranna og spurði frétta.

Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að aflinn hefði verið afar blandaður. “Þetta var mjög blandaður afli að þessu sinni. Mest af ýsu en annars algjör kokteill. Töluvert af þorski og síðan ufsi, karfi, lýsa, langa, blálanga, steinbítur, skötuselur, keila og öfugkjafta. Þetta var drjúgur hluti fiskabókarinnar. Veitt var á Pétursey og Vík og síðan í Skaftárdýpi, Reynisdýpi, Skeiðarárdýpi og Meðallandsbugt. Túrinn tók fjóran og hálfan dag og veður gat verið verra. Það voru tveir dagar í kaldaskít en annars var þokkalegasta veður,” sagði Egill Guðni.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, sagði að veiðiferðin hefði gengið vel. “Við fórum frá Eyjum á fimmtudagskvöld og byrjuðum á Víkinni. Þar var heldur rólegt. Síðan var keyrt austur eftir og tekið eitt hol í Lónsbugtinni. Þá var reynt við ýsu á Glettinganesflaki og síðan var ágæt ýsuveiði á Gerpisflakinu. Loks var haldið á Gula teppið og klárað þar. Aflinn í túrnum var mest ýsa en ágætt af þorski með. Það er alls ekki hægt að kvarta undan veðri að þessu sinni. Það var fínasta veður allan tímann; norðan kaldi,” sagði Jón.

Bergur mun halda á ný til veiða síðar í dag en veðurútlit er ekki sérlega gott.