Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey VE og Bergur VE komu bæði til heimahafnar með fullfermi til löndunar á mánudaginn. Heimasíðan heyrði í skipstjórum beggja skipa og spurði frétta af veiðiferðinni. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey lét vel af sér. “Það verður ekki annað sagt en að veiðiferðin hafi gengið nokkuð vel. Að þessu sinni lögðum við mikla áherslu á ufsa og veður var þokkalegt allan tímann. Við byrjuðum veiðarnar í Reynisdýpinu og síðan var haldið á Kötlugrunn, Síðugrunn, á Ingólfshöfða og í Sláturhúsið,” segir Birgir Þór.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, var einnig sáttur við veiðiferðina. “Túrinn hjá okkur byrjaði ekkert alltof vel en krapavélin bilaði þegar búið var að taka þrjú hol og þá var haldið í land til að sækja varastykki og landað þeim 30 tonnum sem komin voru um borð. Síðan var haldið á Höfðann og þar fékkst ýsa. Eftir nokkurn tíma þar var straujað austur og þar fengum við vænan og góðan þorsk utan Fótar. Þetta var fyrsti túr skipsins eftir mánaðarlangt sumarstopp,” segir Jón.
Strax að löndun lokinni hófst fimm ára skoðun á skipunum en þá eru þau meðal annars þykktarmæld. Munu þau halda á ný til veiða í dag eða í kvöld.