Jóhanna Gísladóttir GK er nú að veiðum fyrir vestan. Ljósm. Jón Steinar Sæmundsson

Ísfisktogarinn Jóhanna Gísladóttir GK landaði fullfermi í Grundarfirði á laugardagsmorgun. Haldið var til veiða á ný strax að löndun lokinni. Heimasíðan ræddi í morgun við Einar Ólaf Ágústsson skipstjóra til að fræðast um fiskiríið. ”Aflinn, sem við lönduðum á laugardaginn, var mest þorskur en einnig ufsi og karfi. Við vorum að veiðum í Víkurálnum, bæði austur- og vesturhorni. Það gekk ósköp rólega að fiska til að byrja með í túrnum en svo kom þetta og gekk þokkalega í lokin. Það var farið beint út að löndun lokinni og nú erum við nálægt því að fylla í kantinum vestan við Patreksfjörð. Hér er vetrarveður og sannkölluð skítabræla en það hefur verið ágætis kropp. Við reiknum með að landa í Grundarfirði í kvöld eða fyrramálið. Það er meiri þorskur í aflanum núna en var í fyrri túrnum. Hér um borð eru menn bara brattir enda er sjómannadagshelgi framundan,” sagði Einar Ólafur.