Vestmannaey VE kom til löndunar í Eyjum á miðvikudag. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði nánast fullfermi í Eyjum á miðvikudaginn. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. “Það var víða veitt í þessum túr. Við byrjuðum á Pétursey og færðum okkur síðan yfir á Vík. Við vildum fá heldur meiri ýsu og fórum austur á Öræfagrunn og síðan á Mýragrunn en ýsan jókst lítið í aflanum. Loks var farið vestur á Höfða og endað í vitlausu veðri á sama stað og við byrjuðum á, það er á Péturseynni. Þrátt fyrir veðrið var þar þokkalegasta veiði. Við vorum eina fjóra sólarhringa að veiðum en drjúgur hluti tímans fór í siglingar. Aflinn er mjög blandaður; þorskur, ufsi, ýsa og langa. Í dag verður lagt af stað til Akureyrar en þar verður farið í slipp. Þar verður skipið allt tekið í gegn. Það verður hreinsað, málað, öxuldregið, vélar teknar upp og svo framvegis. Við gerum ráð fyrir að slippvinnan taki um mánaðartíma,” sagði Birgir Þór.