Vinnsla á íslenskri sumargotssíld, sem veidd var vestur af landinu, hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað 31. október sl. og lauk sl. laugardagsmorgun 7. desember. Veiðin gekk vel í alla staði en óvenjulegt var hve síldin stóð djúpt og til að ná veiðiárangri þurfti að draga trollið nánast við botn. Síldin sem þarna fékkst var góð og hentaði vel til manneldisvinnslu; hún var vel haldin og meðalvigtin var um 300 grömm. Við manneldisvinnsluna í fiskiðjuverinu flokkaðist afar lítið frá en ásamt afskurði fór það til framleiðslu á mjöli og lýsi. Í fiskiðjuverinu var tekið á móti um 15.000 tonnum af íslenskri sumargotssíld sem veidd var vestan við landið en skipin sem fluttu síldina að landi voru Barði NK, Beitir NK, Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson EA.
Alls voru fryst um 6.000 tonn af afurðum í fiskiðjuverinu á þeim tíma sem íslenska sumargotssíldin var unnin. Heilfryst voru um 500 tonn, framleidd voru um 4.300 tonn af samflökum og rúmlega 1.000 tonn af flökum. Í fiskiðjuverinu var unnið á tveimur vöktum og voru 25 starfsmenn á hvorri vakt. Að auki störfuðu í verinu verkstjórar og vélamenn. Eins og gefur að skilja voru annir í frystigeymslum Síldarvinnslunnar á meðan á vertíðinni stóð. Flutningaskip komu reglulega á vertíðartímanum og lestuðu síld og eins hafa gámar með síld farið til Reyðarfjarðar þar sem þeim hefur verið skipað út.
Vinnslan hefur gengið vel alla vertíðina enda hráefnið eins og best verður á kosið Að lokinni vertíð er fiskiðjuverið allt, bæði hús og tækjabúnaður, þrifið hátt og lágt og næsta vertíð undirbún. Vonandi verður næsta vertíð loðnuvertíð sem hefst fljótlega eftir áramót.