
Línuskipin Páll Jónsson GK og Sighvatur GK lönduðu báðir í heimahöfn í Grindavík fyrr í vikunni. Ísfisktogarinn Jóhanna Gísladóttir GK landaði hins vegar á Djúpavogi. Heimasíðan spurði skipstjórana frétta og sagði Benedikt Jónsson á Páli Jónssyni að hann væri ágætlega sáttur við viðiferðina. “Við lönduðum 89 tonnum á mánudag og var aflinn nánast eingöngu langa og keila.Aflinn var tekinn í kantinum á milli Háfadýpis og Reynisdýpis. Þetta voru fimm og hálf lögn og það fengust frá 13 og upp í 18 tönn í lögninni. Það var talsvert fyrir þessu haft en það er varla annað hægt en að vera þokkalega ánægður með aflann,” sagði Benedikt.
Óli Björn Björgvinsson, skipstjóri á Sighvati, sagðist einnig vera sáttur við aflann í veiðiferðinni en hafa bæri í huga að mikill tími hefði farið í stím. ”Við lönduðum 75 tonnum á þriðjudag og aflinn var að langmestum hluta keila og langa. Það var farið út í brælu og við byrjuðum að leggja í kantinum vestan við Surt. Síðan var farið austur á Kötlugrunn og verið þar í þokkalegasta veðri. Þetta var fimm lagna túr en einungis síðasta lögnin var full,” sagði Óli Björn.
Einar Ólafur Ágústsson, skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttur, sagði að nú hefði verið veitt fyrir austan og því hefði verið landað á Djúpavogi sl. laugardag. ”Við byrjuðum veiðar í túrnum við Hvalbakinn og síðan var farið í Tólf tonna pyttinn og loks á Herðablaðið. Veiðin gekk vel og við fylltum skipið af þorski sem fékkst að mestu á Herðablaðinu. Þarna var um mjóg góðan fisk að ræða. Strax að löndun lokinni var haldið á Herðablaðið á ný en þá brá svo við að aflabrögðin voru mun lakari en verið hafði,” sagði Einar Ólafur.