Síld landað úr Beiti NK. Ljósm.: Smári Geirsson
Beitir NK kom með 1.240 tonn af síld til Neskaupstaðar á þriðjudagskvöld og hófst fljótlega vinnsla á aflanum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra og spurði fyrst hvar veitt hefði verið. “Við vorum að veiða rétt austan við Norðfjarðarflákann og við vorum innan við sólarhring að veiðum eða í um það bil 20 tíma. Við tókum þrjú stutt hol og það var stutt dregið. Lengsta holið var þrír tímar en það stysta einungis 40 mínútur. Í stysta holinu fengust 470 tonn. Rúmlega helmingur af síldinni sem fékkst þarna var norsk – íslensk síld en tæplega helmingur íslensk sumargotssíld. Meðalvigt norsk – íslensku síldarinnar var 409 grömm en meðalvigt þeirrar íslensku um 300 grömm. Þetta er stór og mjög falleg síld og það er svo stutt frá miðunum í land að hún kemur nánast spriklandi upp úr tönkum skipsins þegar byrjað er að landa. Það var gríðarlegt líf á þeim bletti sem veitt var á og það sem vakti mesta athygli okkar voru hvalirnir. Þarna töldum við yfir 30 háhyrninga og þarna var fjöldi hrefna ásamt mörgum hnúfubökum. Og allir þessir hvalir djöfluðust þarna í síldinni og éta örugglega heil ósköp. Við vorum skíthræddir að fá hval í trollið. Það er óvenjulegt að sjá svona margar tegundir hvala á sama blettinum,” segir Tómas.