Yfirlit um sögu Síldarvinnslunnar

Stofnun

Síldarvinnslan hf. var stofnuð 11. desember 1957. Á stofnfundi var ákveðið að hlutafé skyldi vera 500 þúsund krónur og aðalhluthafi í upphafi var Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) með 60% hlutafjár. Bæjarsjóður Neskaupstaðar lagði fram 10% hlutafjárins og Dráttarbrautin hf. 6%. Aðrir hluthafar voru 32 talsins. Félagið var skilgreint sem almenningshlutafélag og skyldi tilgangur þess vera að reisa og reka síldarverksmiðju, síldarverkun og annan skyldan atvinnurekstur í Neskaupstað.

Helsta ástæðan fyrir stofnun Síldarvinnslunnar hf. var aukin síldveiði úti fyrir Austfjörðum. Eftir langt hlé hafði síldarsöltun hafist í Neskaupstað árið 1952 en það háði henni mjög að engin síldarverksmiðja var á staðnum og notast þurfti við litla fiskimjölsverksmiðju SÚN til að vinna úrgang frá söltuninni og þá síld sem ekki reyndist hæf til söltunar. Ljóst var að ef Neskaupstaður vildi bæta samkeppnisstöðu sína sem síldarbær varð að reisa þar afkastamikla síldarverksmiðju. Engar líkur voru á að slíkri verksmiðju myndi skorta hráefni á síldarvertíðinni vegna þess að Neskaupstaður lá afar vel við miðunum og frá staðnum voru gerðir út á annan tug báta til síldveiða.

Áður en Síldarvinnslan var stofnuð voru nokkrar umræður um hverjir skyldu eiga fyrirtækið og þar með hafa áhrif á stjórn þess. Niðurstaða þeirrar umræðu varð sú að félagið skyldi opið öllum bæjarbúum og fyrirtækjum í bænum en jafnframt þótti eðlilegt að félagsskapur útvegsmanna í byggðarlaginu, SÚN, ætti meirihluta í því.

Starfsemin hefst

Fljótlega eftir stofnun Síldarvinnslunnar var ákveðið að fyrirtækið skyldi reisa 2400 mála síldarverksmiðju. Þegar var hafist handa við að undirbúa framkvæmdir og voru verksmiðjuvélarnar keyptar frá síldarverksmiðju á Dagverðareyri við Eyjafjörð. Vélsmiðjan Héðinn í Reykjavík var fengin til að annast gerð teikninga af verksmiðjunni og sjá um byggingu hennar.

Byggingarframkvæmdir hófust í byrjun aprílmánaðar 1958 og þann 17. júlí sama ár hófst móttaka síldar. Á fyrsta starfsárinu tók verksmiðjan á móti liðlega 4.000 tonnum af hráefni en mest hráefni á einu ári fékk hún árið 1966, 107.533 tonn.

Síldarverksmiðjan átti eftir að skila góðum arði og leggja grunn að öflugu fyrirtæki. Verksmiðjan var starfrækt allt þar til hún eyðilagðist í snjóflóði 20. desember 1974. Ný verksmiðja var þá reist á nýju hafnarsvæði fyrir botni Norðfjarðar og tók hún til starfa í febrúarmánuði 1976.

Útgerð

Í árslok 1963 var ákveðið að Síldarvinnslan hæfi útgerð síldarskipa. Samþykkt var að láta smíða tvö skip og skyldu þau tryggja verksmiðju fyrirtækisins hráefni. Skipin tvö, Barði og Bjartur, komu í fyrsta sinn til heimahafnar í mars- og maímánuði 1965 og hófst þá útgerðarsaga Síldarvinnslunnar. Útgerðin gekk strax vel og ekki leið á löngu þar til tvö ný og stærri síldveiðiskip bættust í flota fyrirtækisins. Það voru Börkur og Birtingur sem byrjað var að gera út á árunum 1966 og 1967.

Þegar veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum brugðust á árinu 1968 jókst áhugi á bolfisk- og loðnuveiðum. Árið 1970 festi Síldarvinnslan kaup á skuttogaranum Barða og var það fyrsti skuttogarinn í eigu Íslendinga. Annar skuttogari, Bjartur, bættist í flotann árið 1973 og sá þriðji, Birtingur, árið 1977.

Síldarvinnslan tók fyrst á móti loðnu til vinnslu árið 1968 og fljótlega urðu loðnuveiðar og loðnuvinnsla verulegur þáttur í starfsemi fyrirtækisins. Árið 1973 festi Síldarvinnslan kaup á stóru skipi, Berki,  sem leysti smærri skip af hólmi á sviði loðnuveiða auk þess sem því var ætlað að leggja stund á kolmunnaveiðar. Árið 1981 var síðan Beitir keyptur og gat það skip stundað loðnu- og bolfiskveiðar jöfnum höndum.

Frá þessum tíma hafa fjölmörg skip verið í eigu Síldarvinnslunnar og verður sú saga ekki frekar rakin hér. Áhersla hefur ávallt verið lögð á að aðlaga flota fyrirtækisins þeim aðstæðum sem ríkja við veiðarnar.

Þegar þetta er ritað (2021) gerir Síldarvinnslan út uppsjávarskipin Beiti og Börk, frystitogarann Blæng og ísfisktogarann Gullver sem á heimahöfn á Seyðisfirði. Að auki gerir dótturfélagið Bergur-Huginn út ísfisktogarana Vestmannaey og Bergey frá Vestmannaeyjum og félagið Runólfur Hallfreðsson ehf. gerir út uppsjávarskipið Bjarna Ólafsson sem á heimahöfn á Akranesi.

 

Bolfiskvinnsla

 Í marsmánuði 1965 festi Síldarvinnslan kaup á framleiðslutækjum SÚN. Um var að ræða frystihús, fiskimjölsverksmiðju, lifrarbræðslu, ísframleiðslutæki, fiskhjalla og helmingshlut í síldarsöltunarstöð. Með kaupunum færði Síldarvinnslan verulega út kvíarnar. Fram til þessa hafði fyrirtækið eingöngu rekið síldarverksmiðju en með umræddum kaupum hófst fjölbreyttur fiskiðnaður á vegum þess.

Árið 1968 hóf Síldarvinnslan saltfiskverkun og var fest kaup á heppilegu húsnæði fyrir saltfisk- og skreiðarverkun árið 1973.

Í febrúarmánuði 1997 var nýtt fiskiðjuver Síldarvinnslunnar tekið í notkun. Í fiskiðjuverinu fór fram frysting á uppsjávarfiskum, bolfiskvinnsla og einnig síldarsöltun. Með byggingu fiskiðjuversins var verið að fylgja þeirri stefnu, sem mótuð hafði verið, að Síldarvinnslan legði megináherslu á uppsjávarveiðar og –vinnslu.

Árið 2000 var byggð frysti- og kæligeymsla við fiskiðjuver fyrirtækisins og var það stærsta hús sinnar tegundar á Íslandi. Önnur frystigeymsla, sambyggð hinni fyrri, var síðan tekin í notkun árið 2006.

 

Snjóflóðin 1974

Hinn 20. desember 1974 féllu tvö snjóflóð innarlega í Neskaupstað og lögðu helstu framleiðslufyrirtæki bæjarbúa í rúst eða ollu á þeim stórskemmdum. Tólf manns týndu lífi í flóðunum. Fyrra flóðið féll á athafnasvæði Síldarvinnslunnar og gereyðilagði síldarverksmiðjuna og áföst mjölgeymsluhús auk tanka auk smærri húsa sem stóðu í grennd við verksmiðjuna. Þá braut flóðið í spón tvö starfsmannahús norðan við frystihús fyrirtækisins og olli stórskemmdum á frystihúsinu. Af þeim tólf sem fórust í flóðinu voru sjö fastir starfsmenn Síldarvinnslunnar.

Tjón Síldarvinnslunnar af völdum þessara náttúruhamfara var gríðarlegt og þrátt fyrir fögur fyrirheit fór því fjarri að Viðlagasjóður bætti skaðann að fullu. Strax eftir flóðin var hafist handa við að tryggja að hjól atvinnulífsins færu aftur að snúast. Niðurlagningaverksmiðja Síldarvinnslunnar var gangsett en vinnsla í henni hafði hafist árið 1971. Allur togara- og bátafiskur var saltaður og 20. mars 1975 var unnt að hefja starfsemi í frystihúsinu á ný.

Ákveðið var að reisa nýja fiskimjölsverksmiðju við nýtt hafnarsvæði fyrir botni Norðfjarðar. Í júlímánuði 1975 hófust framkvæmdir við byggingu hennar og 12. febrúar 1976 tók hún á móti fyrstu loðnunni til vinnslu.

Framkvæmda- og forstjórar

Þegar bygging síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar hófst árið 1958 var Jón Svan Sigurðsson ráðinn framkvæmdastjóri byggingaframkvæmdanna en hann gegndi jafnframt starfi framkvæmdastjóra Bæjarútgerðar Neskaupstaðar á þessum tíma. Þegar síldarverksmiðjan hóf framleiðslu sumarið 1958 var ákveðið að SÚN annaðist framkvæmdastjórn fyrst um sinn. Þar með varð Jóhannes Stefánsson framkvæmdastjóri SÚN jafnframt framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.

Árið 1960 var Hermann Lárusson ráðinn framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar en þegar Síldarvinnslan festi kaup á framleiðslutækjum SÚN árið 1965 var Jóhannes Stefánsson ráðinn til að gegna starfi framkvæmdastjóra frystihússins og síldarsöltunarstöðvarinnar.

Þeir Hermann og Jóhannes létu báðir af störfum framkvæmdastjóra árið 1968 og var Ólafur Gunnarsson ráðinn í þeirra stað. Ólafur var framkvæmdastjóri til ársins 1984 en þá tók Guðjón Smári Agnarsson við starfinu og sinnti því til ársins 1986.

Finnbogi Jónsson hóf störf sem forstjóri Síldarvinnslunnar árið 1986 og gegndi starfinu til ársins 1999. Björgólfur Jóhannsson var forstjóri 1999-2006 og Aðalsteinn Helgason 2006-2007. Núverandi forstjóri, Gunnþór B. Ingvason, tók við starfinu 1. júní árið 2007.

Lengi vel stýrði sérstakur framkvæmdastjóri útgerð fyrirtækisins. Eftirtaldir gegndu því starfi: Jóhann K. Sigurðsson 1964-1995, Freysteinn Bjarnason 1995-2005 og Gunnþór B. Ingvason 2005-2007. Gunnþór hefur stýrt málefnum útgerðarinnar æ síðan og er það hluti af starfi hans sem forstjóri.

Árið 2001 var Jóhannes Pálsson ráðinn framkvæmdastjóri landvinnslu Síldarvinnslunnar og gegndi hann starfinu til 2008. Á árunum 2007-2008 sinnti hann einnig framkvæmdastjórn fyrir erlenda starfsemi ásamt því að sjá um markaðs- og sölumál.

Hlutdeild í öðrum fyrirtækjum og sameining fyrirtækja

Síldarvinnslan hefur á starfstíma sínum eignast hlutdeild í mörgum fyrirtækjum og einkum hafa það verið fyrirtæki á sviði sjávarútvegs. Má þar til dæmis nefna útgerðarfyrirtæki, fyrirtæki sem annast sölu sjávarafurða og fyrirtæki sem fengist hafa við fiskeldi. Þá ber einnig að nefna fyrirtæki sem hafa sinnt þjónustu við sjávarútveginn.

Hér skal sérstaklega getið um sameiningu Síldarvinnslunnar og SR-mjöls. Síldarvinnslan átti nokkurn hlut í SR-mjöli hf. frá stofnun þess og vorið 2002 var sá eignarhlutur aukinn verulega. Síldarvinnslan og SR-mjöl voru síðan sameinuð í eitt félag 1. janúar 2003 undir nafni Síldarvinnslunnar og varð þá til stærsta fyrirtæki á Íslandi á sviði veiða og vinnslu á uppsjávarfiski.

Tvö þeirra fyrirtækja sem Síldarvinnslan á eignarhlut í eru erlend. Annars vegar er það Atlantic Coast Fisheries í New Bedford í Bandaríkjunum og hins vegar Polar Pelagic á Grænlandi sem gerir út uppsjávarskipið Polar Amaroq.

Á markað, af markaði og aftur á markað

Árið 1990 hafði hlutafé Síldarvinnslunnar ekki verið aukið með innborgunum sem neinu nam frá upphafi. Á næstu árum var hlutaféð hins vegar aukið nokkrum sinnum með útgáfu jöfnunarhlutabréfa og eins voru nýir hlutir seldir. Hinn 12. október árið 1994 var Síldarvinnslan síðan skráð á Verðbréfaþing Íslands (síðar Kauphöll Íslands) og fóru viðskipti með hlutabréf fyrirtækisins þar fram til ársins 2004. Í maímánuði 2004 var gefin út tilkynning um að stærstu hluthafarnir í Síldarvinnslunni hefðu gert með sér samkomulag um stjórnun og rekstur fyrirtækisns og jafnframt óskað eftir því að hlutabréf þess yrðu afskráð úr Kauphöll Íslands. Þessir stærstu hluthafar voru Samherji, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, Snæfugl, Gjögur og Kaldbakur. Samtals áttu þessir hluthafar 62,08% hlutafjárins í fyrirtækinu. Vegna þessa samkomulags stærstu hluthafanna var þeim skylt að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð og tóku því margir.

Frá þessum tíma hafa sáralitlar breytingar orðið á eignarhaldinu í Síldarvinnslunni. Í ársbyrjun 2021 voru hluthafar í Síldarvinnslunni 281 talsins. Stærstu hluthafarnir voru Samherji hf. með 44,64% eignarhlut, Kjálkanes ehf. með 34,23%, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað með 10,97% og Eignarhaldsfélagið Snæfugl ehf. með 5,29%.

Í febrúarmánuði 2021 tilkynnti Síldarvinnslan að stefnt yrði að því að skrá hlutabréf fyrirtækisins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Fram kom að þetta væri gert til að efla fyrirtækið og opna það fyrir fjárfestum.

Eitt af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjunum

Síldarvinnslan er eitt af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og byggir starfsemin á yfir 60 ára reynslu í fiskvinnslu og útgerð. Fyrirtækið er hið stærsta á Íslandi í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski. Starfsemi Síldarvinnslunnar er á fimm stöðum á landinu og starfa um 360 manns hjá fyrirtækinu. Starfsstöðvarnar auk Neskaupstaðar eru á Seyðisfirði (útgerð ísfisktogarans Gullvers og rekstur frystihúss), Akranesi (útgerð Bjarna Ólafssonar AK á vegum Runólfs Hallfreðssonar ehf.), Vestmannaeyjum (útgerð ísfisktogaranna Vestmannaeyjar VE og Bergeyjar VE á vegum Bergs-Hugins ehf.) og Akureyri (Fóðurverksmiðjan Laxá hf). Á undanförnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á að treysta starfsemi fyrirtækisins og endurnýja framleiðslutæki.

 

Frekari upplýsingar um söguna

Þeir sem vilja kynna sér sögu Síldarvinnslunnar ítarlega skal bent á þrjú rit eftir Smára Geirsson:

Norðfjörður. Saga útgerðar og fiskvinnslu. (Gefið út árið 1983).

Síldarvinnslan hf. Svipmyndir úr hálfrar aldar sögu. (Gefið út 2007).

Síldarvinnslan í 60 ár. (Gefið út 2017).