VEIÐAR
Aflaheimildir samstæðunnar á kvótaárinu 2022/2023 eru 220 þúsund tonn eða 52 þúsund þorskígildistonn.
Beitir NK
Beitir NK 123 er uppsjávarskip og hefur verið í eigu SVN frá árinu 2015. Núverandi Beitir er fjórða skip SVN sem ber nafnið. Beitir var smíðaður í Litháen árið 2014 og hét upphaflega Gitte Henning og var í eigu danskrar útgerðar. Skipstjórar á Beiti eru þeir Sturla Þórðarsson og Tómas Kárason.
Skipið er 4138 tonn að stærð. 86,3 m að lengd og 17,6 m á breidd. Aðalvél þess er 5200 KW af gerðinni Wartsila og 2600 KW ljósavél. Burðargeta skipsins er 3200 tonn, skipið er búið öflugum RSW kælibúnaði eða 2,6 milljóna kcal með ammoníak-kælimiðla.
Börkur NK 122
Börkur NK 122 er uppsjávarskip og hefur verið í eigu SVN frá árinu 2021. Núverandi Börkur er fimmta skip Síldarvinnslunnar sem ber nafnið. Börkur var smíðaður í Danmörku árið 2021 fyrir Síldarvinnsluna. Skipstjórar á Berki eru þeir Hálfdán Hálfdánarson og Hjörvar Hjálmarsson.
Skipið er 89 m að lengd, 16,6 m að breidd og 4.140 brúttótonn. Tvær 3.600 kw aðalvélar eru í skipinu. Þrettán kælitankar fyrir afla eru í því og er burðargetan rösklega 3.300 tonn. Allur búnaður um borð í skipinu er af nýjustu og bestu gerð og mikil áhersla lögð á að búið sé vel að áhöfn. Nefna má einnig að mikil áhersla var lögð á orkusparnað við smíði skipsins og má fullyrða að ekki hafi umhverfisvænna skip verið í íslenska fiskiskipaflotanum.
Skoðið nýjan Börk í 360° View
Börkur NK kom nýr í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 3. júní sl. Nú gefst lesendum kostur á að skoða hvern krók og kima í skipinu í 360ᵒ View. Unnt er að fara um skipið í tölvunni og virða fyrir sér þetta nýjasta fiskiskip íslenska fiskiskipaflotans. Það er Vignir Már Garðarsson hjá Fasteignaljósmyndum sem annaðist myndatökuna.
Barði NK 120
Barði NK 120 er uppsjávarskip sem hefur verið í eigu SVN, frá árinu 2014. Barði hét áður Börkur. Barði var smíðaður í Tyrklandi 2012 og bar áður nafnið Börkur og Malen S. Núvernadi Barði er fjórða skip Síldarvinnslunnar sem ber nafnið. Skipstjórar á Barða eru Runólfur Runólfsson og Þorkell Pétursson
Skipið er 3588 tonn að stærð, 70,98 m að lengd og 17 m á breidd. Burðargeta skipsins er 2600 tonn.
Blængur NK
Blængur NK er frystitogari sem hefur verið í eigu SVN frá árinu 2015. Blængur hét upphaflega Ingólfur Arnarsson en lengst af Freri RE og var smíðaður í skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S.A. á Spáni. Skipið kom nýtt til landsins í janúarmánuði 1974. Það var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur til ársins 1985 en þá festi Ögurvík hf. kaup á því. Þegar Ögurvík eignaðist skipið var því breytt í frystiskip. Árið 2000 voru umfangsmiklar breytingar gerðar á skipinu en þá var það meðal annars lengt um 10 metra og aðalvél þess endurnýjuð ásamt öðrum vélbúnaði. Einnig var vinnslulínan og frystilest endurnýjuð. Skipstjórar á Blæng eru Bjarni Ólafur Hjálmarsson og Sigurður Hörður Kristjánsson.
Skipið er 79 m langt og 10 m á breidd og búið 5000 hestafla aðalvél af gerðinni Wartsila.
Gullver NS
Gullver NS er ísfisktogari sem var smíðaður fyrir Gullberg á Seyðisfirði. Síldarvinnslan eignaðist það félag árið 2014 og sameinuðust félögin undir nafni Síldarvinnslunnar árið 2018. Gullver var smíðaður í Noregi árið 1983. Skipstjórar á Gullver eru þeir Steinþór Hálfdánarsson og Þórhallur Jónsson.
Skipið er 674 tonn af stærð, 49,9 m á lengd og 9,5 m á breidd. Skipið er með 1303 KW MaK vél.
Bergur VE 144
Bergur er ísfisktogari sem er í eigu Bergs, dótturfélags SVN. Skipið er gert út frá Vestmannaeyjum og var smíðað í Noregi árið 2019. Skipstjóri á Berg er Jón Valgeirsson.
Skipið er 611 tonn að stærð, 28,9 m að lengd og 12 m að breidd.
Vestmannaey
Vestmanney er ísfisktogari sem er í eigu Bergs-Hugins, dótturfélags SVN. Skipið er gert út frá Vestmannaeyjum og var smíðað í Noregi árið 2018. Skipstjóri á Vestmanney er Birgir Þór Sverrisson.
Skipið er 611 tonn að stærð, 28,9 m að lengd og 12 m að breidd.