Vinnsla
Uppsjávarvinnsla
Síldarvinnslan er stærsti framleiðandi landsins á uppsjávarafurðum. Síldarvinnslan rekur í dag tvær fiskimjölsverksmiðjur, í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Fyrirtækið rekur hátækni fiskiðjuver í Neskaupstað og þar eru einnig stærstu frystigeymslur á landinu.
Fiskimjölsverksmiðjur
Undanfarin ár hefur framleiðsla í fiskimjölsverksmiðjum dregist saman. Ástæður fyrir samdrætti í framleiðslu eru einkum tvíþættar; Aukin áhersla á manneldisvinnslu úr uppsjávarfiski, en eina tegundin sem nú á tímum er alfarið nýtt til framleiðslu á fiskimjöli er kolmunni. Árið 2022 var tekið á móti 274 þúsund tonnum af hráefni í fiskimjölsverksmiðjum félagsins. Mikill aukning var á milli ára og skýrist aukningin nánast alfarið á stórri loðnuvertíð árið 2022.
Árið 2003 eftir samruna Síldarvinnslunnar og SR mjöls var fyrirtækið með sjö verksmiðjur í rekstri ásamt því að félagið átti hlutdeild í verksmiðju á Hornafirði. Nýting á verksmiðjunum var léleg og fyrir vikið var ráðist í að fækka þeim.
Fiskimjölsverksmiðja Neskaupstað
Verksmiðjan í Neskaupstað er nýtt allt árið um kring og tekur hún á móti hráefni beint til vinnslu ásamt því að taka á móti afskurði frá fiskiðjuverinu og frystiskipum. Verksmiðjan er útbúin til framleiðslu á LT-mjöli. Afkastageta verksmiðjunnar er 1400 tonn á sólarhring. Fyrirhuguð er stækkun á verksmiðjunni í 2380 tonn á sólarhring. Sömuleiðis verður byggð upp lítil verksmiðjueining sem mun afkasta 380 tonnum á sólarhring.
Verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað er Hafþór Eiríksson en hann er jafnframt rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja félagsins.
Fiskimjölsverksmiðjan á Seyðisfirði
Verksmiðjan á Seyðisfirði hefur afkastagetu upp á 1200 tonn á sólarhring og er útbúin til framleiðslu á LT-mjöli. Verksmiðjan á Seyðisfirði tekur nánast eingöngu á móti kolmunna og loðnu til vinnslu. Verksmiðjustjóri er Eggert Ólafur Einarsson.
Fiskiðjuverið
Síldarvinnslan rekur hátækni uppsjávarfiskiðjuver í Neskaupstað. Fiskiðjuverið er búið öllum nýjustu tækjum og búnaði og er þar hægt að frysta um 700 tonn af afurðum á sólarhring. Mikil fjárfesting hefur átt sér stað í fiskiðjuverinu síðasta áratuginn og hefur verið lögð áhersla á að auka afkastagetu og auka gæði afurða. Á vertíðum starfa yfir 70 manns í fiskiðjuverinu; verkstjórar, fiskvinnslufólk, vélstjórar og rafvirkjar svo eitthvað sé nefnt. Rekstrarstjóri fiskiðjuverins er Geir Sigurpáll Hlöðversson.
Í fiskiðjuverinu er mest unnið af makríl, síld og loðnu. Árið 2022 var tekið á móti 50 þúsund tonnum af hráefni til vinnslu. Í fiskiðjuverinu er einnig vinnslulína fyrir bolfisk.
Frystigeymslur
Í Neskaupstað eru stærstu frystigeymslur landsins og er þar hægt að geyma 21 þúsund tonn af frosnum afurðum. Allur afurðir sem eru framleiddar í fiskiðjuverinu eru geymdar þar og einnig landa frystiskip frosnum afurðum í geymslurnar. Þrátt fyrir að geymslurnar geti geymt mikið af afurðum er velta á brettum í geymslunum mikil á hverju ári og yfir vertíðar eru útskipanir tíðar. Heimir Ásgeirsson stýrir starfsemi í frystigeymslunum.
Bolfiskvinnsla
Vægi veiða og vinnslu á bolfiski hefur aukist hjá Síldarvinnslunni undanfarinn áratug. Síldarvinnslan rekur frystihús fyrir bolfisk á Seyðisfirði. Uppistaða afurða sem eru framleiddar þar eru þorskur, ufsi og ýsa. Árið 2022 var tekið á móti tæplega 2.500 tonnum af hráefni til vinnslu í frystihúsinu. Rekstrarstjóri fiskvinnslunnar er Ómar Bogason.