Þrjú norsk loðnuskip landa í Neskaupstað

Norsku loðnuskipin Torbas og Birkeland bíða löndunar. Lengst til hægri sést í Manon sem er að landa. Ljósm. Smári Geirsson.Norsku loðnuskipin Torbas og Birkeland bíða löndunar. Lengst til hægri sést í Manon sem er að landa. Ljósm. Smári GeirssonÞrjú norsk loðnuskip komu með afla til Neskaupstaðar í nótt og verður afli þeirra unnin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Manon kom með 320 tonn og Birkeland og Torbas með 500 tonn hvor. Vinnsla á loðnu hófst í fiskiðjuverinu í gær og segir Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri að um sé að ræða stóra og fallega loðnu sem henti vel til frystingar. Segir hann að hrognafyllingin sé um 10%.
 
Aflann fengu norsku skipin út af Austfjörðum og segja skipstjórar þeirra að loðnu sé víða að sjá í töluverðum mæli. Gallinn sé hins vegar sá að hún hafi staðið djúpt þannig að þeir hafi átt í erfiðleikum með að ná henni í nótina. Í gær gekk nótaveiðin þó betur en áður og fengust þá allt upp í 700 tonna köst.

Síldarvinnslan er framúrskarandi fyrirtæki

Samkvæmt mælikvarða Creditinfo eru 1,9% íslenskra fyrirtækja framúrskarandi á árinu 2015. Síldarvinnslan er þar á meðal og er reyndar í sjötta sæti í flokki stórra fyrirtækja þar sem Samherji trónir á toppnum. Til að komast í hóp framúrskarandi fyrirtækja eru gerðar strangar kröfur: Það þarf að vera minna en 0,5% líkur á alvarlegum vanskilum, fyrirtækið þarf að hafa sýnt jákvæðan rekstrarhagnað þrjú ár í röð, niðurstaða ársreiknings þarf að hafa verið jákvæð þrjú ár í röð og eignir séu 80 milljónir eða meira á árunum 2011-2013. Fyrirtækjum er veitt viðurkenning í þremur flokkum og alls uppfylltu 682 fyrirtæki skilyrði Creditinfo af tæplega 35.000 fyrirtækjum sem skráð eru í landinu.
 
Eins og fyrr greinir er Síldarvinnslan í sjötta sæti í flokki stórra fyrirtækja en á heildarlistanum yfir framúrskarandi fyrirtæki má einnig finna dótturfyrirtækið Laxá hf. á Akureyri. Þá eru einnig á listanum eftirtalin hlutdeildarfyrirtæki Síldarvinnslunnar: Runólfur Hallfreðsson ehf. á Akranesi, G. Skúlason vélaverkstæði ehf. í Neskaupstað og Fjarðanet hf. í Neskaupstað.
 
Creditinfo hefur upplýst að 37 fyrirtæki af 449 í sjávarútvegi, eða 8%, séu í hópi framúrskarandi fyrirtækja. Athygli vekur að á meðal 20 efstu fyrirtækjanna í flokki stórra fyrirtækja eru tæplega helmingur sjávarútvegsfyrirtæki. Framúrskarandi fyrirtæki á Austurlandi eru 2,26% þeirra fyrirtækja sem þar starfa og er það næsta hæsta hlutfall landshluta.

Loðnuvinnsla hófst í Neskaupstað í dag

Norska loðnuskipið Ligrunn leggst að bryggju í Neskaupstað í hádeginu í dag. Ljósm. Smári GeirssonNorska loðnuskipið Ligrunn leggst að bryggju í Neskaupstað í hádeginu í dag. Ljósm. Smári GeirssonNorska loðnuskipið Ligrunn kom til Neskaupstaðar í hádeginu í dag með 180 tonn af loðnu. Aflinn fékkst í nótt norður af Grímsey. Þetta er fyrsta loðnan sem borist hefur til vinnslu í Neskaupstað á vertíðinni en hún verður fryst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi við Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu, í morgun og sagði hann að starfsfólkið væri í startholunum og tilbúið að hefja framleiðslu. „Þetta er vissulega lítið magn en það er kærkomið því nú gefst okkur tækifæri til að prófa nýtt frystikerfi sem verið er að taka í notkun,“ sagði Jón Gunnar. 
 
Áfram gengur vel að veiða og vinna loðnu hjá vinnsluskipunum Vilhelm Þorsteinssyni EA og Polar Amaroq og koma þau til löndunar í Neskaupstað á fjögurra til fimm daga fresti.