Bjarni Ólafsson AK kemur til löndunar. Ljósm. Guðlaugur B. Birgisson
Bjarni Ólafsson AK kemur til löndunar. Ljósm. Guðlaugur B. Birgisson
Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er tekið á móti íslenskri sumargotssíld frá þremur skipum: Beiti NK, Berki NK og Bjarna Ólafssyni AK. Síldin er ýmist heilfryst eða flökuð og er unnið úr um 700 tonnum á sólarhring. Lokið var við að landa 1000 tonnum úr Beiti í gær og Bjarni Ólafsson mun koma með 550 tonn í fyrramálið. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldin sé mjög gott hráefni til vinnslu og öll starfsemi í fiskiðjuverinu gangi vel. „Nú er hins vegar svo komið að vinnslan hjá okkur er ekki samfelld. Það er langt að sækja síldina vestur fyrir land og veður hefur eðlilega mikil áhrif. Nú spáir til dæmis brælu og við gætum þurft að bíða töluvert eftir næsta farmi þegar búið verður að vinna síldina sem Bjarni Ólafsson kemur með á morgun. Þá ber að geta þess að síðustu daga hafa verið framkvæmdir um borð í Berki og því þurfti hann að gera hlé á veiðum. Bjarni Ólafsson er núna í sínum næstsíðasta túr á vertíðinni en Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur eiga samtals eftir að veiða um 6500 tonn,“sagði Jón Gunnar.


Gamli nótakraninn kominn í land af Berki NK. Ljósm. Hákon Viðarsson
Gamli nótakraninn kominn í land af Berki NK. Ljósm. Hákon Viðarsson
Eftir að Börkur NK hafði lokið við að landa 1300 tonnum af íslenskri sumargotssíld sl. laugardag var gert hlé á veiðum skipsins. Hléið er notað til ýmissa framkvæmda um borð. Í fyrsta lagi verður nótaleggjari skipsins endurnýjaður og komið fyrir mun öflugri leggjara en áður var. Í öðru lagi er unnið að gerð undirstaða fyrir búnað sem notaður verður til að dæla aflanum af skut en með tilkomu slíks búnaðar þarf ekki lengur að dæla afla úr trollpokanum af síðunni. Vindur og annar búnaður sem tengist skutdælingunni er væntanlegur í lok desembermánaðar og verður þá komið fyrir. Í þriðja lagi er unnið að ýmsum breytingum á vélbúnaði skipsins.

Iðnaðarmenn að störfum um borð í Berki NK. Ljósm. Hákon Viðarsson
Iðnaðarmenn að störfum um borð í Berki NK. Ljósm. Hákon Viðarsson
Margir iðnaðarmenn koma að þessum framkvæmdum. Frá Vélsmiðjunni Hamri kom sjö járniðnaðarmenn og fimm frá Vélaverkstæði G. Skúlasonar. Þá koma þrír iðnaðarmenn frá Færeyjum og tveir frá fyrirtækinu Raftíðni. Fleiri iðnaðarmenn koma síðan að verkefnum um borð í skipinu dag og dag.

Ráðgert er að Börkur haldi á ný til veiða um komandi helgi.
Bjatur NK að lokinni löndun. Ljósm. Hákon Viðarsson
Bjatur NK að lokinni löndun. Ljósm. Hákon Viðarsson
Ísfisktogarinn Bjartur kom til hafnar í Neskaupstað í nótt með 96 tonn og er uppistaða aflans þorskur. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra var víða veitt í túrnum: „Við byrjuðum á Herðablaðinu og héldum þaðan á Breiðdalsgrunn, þvínæst á Þórsbanka og enduðum í Seyðisfjarðardýpinu. Það var heldur lítið að hafa þar til í gær en þá fékkst ágætis afli. Það má því segja að túrinn hafi reddast á síðustu stundu“.


Landað úr Beiti NK í dag. Ljósm. Hákon Viðarsson
Landað úr Beiti NK í dag. Ljósm. Hákon Viðarsson
Beitir NK kom í gær til Neskaupstaðar með 1150 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst utarlega í Kolluálnum vestur af landinu. Að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra fékkst aflinn í fimm holum og var skipið um 50 klukkutíma að veiðum. „Við vorum heldur sunnar en í síðasta túr,“ sagði Tómas,“og það var misjafnlega mikið að sjá þarna. Þetta var mun lélegra en í síðasta túr og við þurftum að leita töluvert. Nú skilst mér að verið sé að leita að síld inni á Breiðafirði en ef marka má orð smábátasjómanna þarna þá er heldur ólíklegt að eitthvað finnist þar. Það mun vera heldur lítið líf í firðinum; lítill fiskur og lítið fuglalíf en síldinni fylgir almennt mikið líf eins og menn vita,“ sagði Tómas. Gert er ráð fyrir að lokið verði við að landa úr Beiti í nótt.

Börkur NK er að síldveiðum fyrir vestan og er kominn með 500 tonn. Þegar haft var samband við Sturlu Þórðarson skipstjóra í morgun sagði hann að lítið væri um að vera. „Það var bræla í gær, ekkert fannst í nótt og við vorum að kasta núna á einhverja peðru. Héðan er því ansi lítið að frétta ,“ sagði Sturla.

Síða 1 af 136

Leturstærð
  • Bræðsla
  • Fiskiðjuver
  • Flot
  • Skip
  • Vinna
Starfsumóknir
Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar
Póstlisti
  {nomultithumb}
Starfsstöðvar
Neskaupstaður
Seyðisfjörður
Helguvík
Veðurstöðin
Hugmyndabankinn
Starfsmannagátt
Vefmyndavél
Bústaður
skipin
Barði NK120
Bjartur NK121
Börkur NK122
Beitir NK123
Birtingur NK124