Sannkallað hörkuskip

DJI 0304 2

Blængur NK við heimkomuna í gær.Ljósm: Hlynur Sveinsson

 

              Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gær eftir gagngerar endurbætur í Póllandi. Skipið lítur afar vel út og fer á næstu dögum til Akureyrar þar sem unnið verður við að koma upp búnaði á vinnsludekki. Á heimsiglingunni frá Gdansk var Theodór Haraldsson skipstjóri og Geir Stefánsson fyrsti stýrimaður. Tíðindamaður heimasíðunnar hitti þá um borð í Blængi í morgun. Báðir töldu þeir að endurbæturnar á skipinu væru afar vel heppnaðar og það væri svo sannarlega tilhlökkunarefni að hefja veiðar á því. Þá sögðu þeir að hér væri um afar gott sjóskip að ræða. „Þetta er sannkallað hörkuskip að öllu leyti“, sagði Theodór. „Það var allt endurnýjað í brúnni og vinnuumhverfið þar er eins og í nýjustu skipum. Þá voru íbúðirnar endurnýjaðar og eru þær orðnar nútímalegar og vistlegar. Einnig var sett hliðarskrúfa í skipið og það allt sandblásið og málað hátt og lágt auk fleiri umbóta sem unnið var að. Í skipinu er líkamsræktaraðstaða og komið var fyrir heitum stórum nuddpotti sem verður örugglega vel nýttur. Á heimleiðinni var gangur skipsins kannaður og það fór í 16,7 mílur. Það verður gaman að veiða á þetta skip,“ sagði Theodór að lokum. 

Hér fyrir neðan má sjá myndir sem teknar voru um borð í Blængi NK að loknum endurbótum á skipinu:

brú blængur

Allt var endurnýjað í brú skipsins. Ljósm: Hákon Ernuson

klefi

Íbúðir skipverja voru allar endurnýjaðar. Ljósm: Hákon Ernuson

pottur

 

Heiti nuddpotturinn verður vel nýttur í framtíðinni. Ljósm: Hákon Ernuson

Blængur kemur til Neskaupstaðar í dag eftir gagngerar endurbætur í Póllandi

                

Um kl. 16 í dag kemur Blængur NK til heimahafnar í Neskaupstað eftir gagngerar endurbætur í Póllandi. Myndin sem fylgir er tekin í Seyðisfjarðardýpinu skömmu fyrir hádegi þegar Blængur mætti þar Barða NK. Eins og sést á myndinni er Blængur orðinn hinn glæsilegasti.

Makríllinn berst að landi en Neistaflugsfrí framundan

Bjarni Ólafsson AK siglir inn Norðfjörð með makrílfarm, fjær er frystiskipið Hákon EA. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK siglir inn Norðfjörð með makrílfarm, fjær er frystiskipið Hákon EA. Ljósm. Hákon Ernuson
Í gærmorgun var lokið við að landa 800 tonnum af makríl úr Berki NK í fiskiðjuverið í Neskaupstað. Beitir NK kom síðan í gær með 580 tonn sem nú er verið að vinna. Þá mun Bjarni Ólafsson AK vera væntanlegur í dag með 300 tonn. Þegar vinnslu á aflanum úr Bjarna Ólafssyni lýkur á morgun verður gefið frí í fiskiðjuverinu yfir verslunarmannahelgina og mun starfsfólkið fá tækifæri til að njóta veglegrar Neistaflugshátíðar.
 
Frystiskipin Vilhelm Þorsteinsson EA og Hákon EA hafa að undanförnu landað frystum makríl í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Vilhelm hefur landað tvisvar, samtals tæplega 1000 tonnum og Hákon landaði sl. laugardag og sunnudag rúmlega 700 tonnum.