Góður gangur í vinnslunni - sumarleyfistími framundan

Úr vinnslusal frystihúss Gullbergs ehf. á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÚr vinnslusal frystihúss Gullbergs ehf. á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÍ frystihúsi Gullbergs ehf. á Seyðisfirði hefur vinnslan gengið vel það sem af er ári. Byggir það á nægu hráefni og úrvals starfsfólki. Ýmist er unninn þorskur eða ufsi í húsinu. Í þessari viku er gert ráð fyrir að tæplega 100 tonn fari í gegnum vinnsluna.
 
Hinn 8. júlí mun verða gert hlé á starfseminni vegna sumarleyfa starfsmanna og mun vinnsla ekki hefjast á ný fyrr en 3. ágúst. 

Saltfiskskemman í sparifötin

 Framkvæmdir hafnar við saltfiskskemmuna. Spariklædd skreiðarskemman í baksýn. Ljósm. Hákon Ernuson Framkvæmdir hafnar við saltfiskskemmuna. Spariklædd skreiðarskemman í baksýn. Ljósm. Hákon ErnusonNú eru hafnar framkvæmdir við að skipta um klæðningu á svonefndri saltfiskskemmu í Neskaupstað. Klæðningin verður að sjálfsögðu í Síldarvinnslulitunum og að framkvæmdum loknum mun saltfiskskemman hafa fengið sambærilegt útlit og skreiðarskemman sem skipt var um klæðningu á fyrir nokkru. Útlit húsanna breytist gríðarlega við nýja klæðningu og er engu líkara en að þau séu klædd í spariföt. Það er Nestak hf. sem annast framkvæmdirnar og gert er ráð fyrir að þeim verði lokið í haust.
 
Saltfiskskemman á sér merka sögu en húsið var byggt sem síldarverksmiðja á árunum 1966-1967. Það var hlutafélagið Rauðubjörg sem byggði verksmiðjuna. Síldarvinnslan festi kaup á húsinu árið 1973 og hóf þar saltfiskverkun árið eftir. Saltfiskverkunin var fjölmennur vinnustaður og störfuðu þar allt að 120 manns yfir sumartímann í nokkur ár. Saltfiskur var verkaður í skemmunni til ársins 1997 og í henni var einnig söltuð síld á árunum 1986-1997 eða þangað til sú starfsemi var flutt í fiskiðjuverið.
 

Umhverfishópurinn stendur fyrir sínu

Naglhreinsað í skreiðarskemmunni. Ljósm. Smári GeirssonNaglhreinsað í skreiðarskemmunni. Ljósm. Smári GeirssonUndanfarin ár hefur Síldarvinnslan ávallt ráðið hóp ungmenna til sumarstarfa í Neskaupstað. Hópnum er ætlað að sinna ýmsum umhverfisverkefnum auk þess sem hann sinnir tilfallandi öðrum verkefnum. Í sumar skipa 10 ungmenni þennan hóp og hefur hann notið verkstjórnar Konráðs Sveinssonar, Sigfúsar Sigfússonar og Sigurjóns Jónusonar. Í samtali við verkstjórana kom fram að hópurinn hefur staðið sig vel og sinnt sínum störfum af samviskusemi. „Hópurinn fæst við ótrúlega fjölbreytt verkefni en megintilgangurinn með störfum hans er að gera fínt; þrífa, mála og taka til,“ sagði Sigfús.
 
Umhverfishópurinn hóf störf um mánaðamótin maí-júní og mun væntanlega starfa fram í ágústmánuð. Þegar tíðindamaður heimasíðunnar fór inn á athafnasvæði Síldarvinnslunnar í morgun hafði hópnum verið skipt upp; nokkrir úr hópnum voru að naglhreinsa í svonefndri skreiðarskemmu, aðrir voru að hreinsa til í svonefndri saltfiskskemmu og enn aðrir aðstoðuðu við matseld um borð í Beiti NK en þar er hópur iðnaðarmanna að störfum. Þá lá fyrir að hópurinn myndi skipta um merkingar á brettum með frystum afurðum síðar í dag. Á þessu sést að ungmennin í umhverfishópnum kynnast fjölþættum störfum og ef marka má orð verkstjóranna stendur hann fullkomlega fyrir sínu.
 
 Tekið til í saltfiskskemmunni. Ljósm. Smári Geirsson Tekið til í saltfiskskemmunni. Ljósm. Smári Geirsson
 
Aðstoðað við matseld um borð í Beiti NK. Ljósm. Smári GeirssonAðstoðað við matseld um borð í Beiti NK. Ljósm. Smári Geirsson