Síðasti makrílfarmur vertíðarinnar til vinnslu í fiskiðjuverinu

Börkur NK að landa makríl. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK að landa makríl. Ljósm. Smári GeirssonÍ gærkvöldi kom Börkur NK til Neskaupstaðar úr Smugunni með síðasta makrílfarminn sem unninn verður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar á þessari vertíð. Afli skipsins var 915 tonn og segir Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri að um sé að ræða ágætan fisk og sé meðalþyngd hans 400-430 grömm. Að auki sé fiskurinn átulaus og henti því afar vel til vinnslu. „Aflinn fékkst í fjórum holum austur undir norsku línunni og það var 400 mílna stím heim,“ sagði Hálfdan. Þegar Hálfdan var spurður út í vertíðina sagði hann: „Hún hefur að mestu gengið vel. Byrjunin var svolítið skrýtin en þá þurfti að sækja aflann vestur fyrir Vestmannaeyjar og í Faxaflóa en á móti kemur að fiskurinn virðist stoppa lengur við landið en áður og veiði hefur staðið yfir lengra fram á haustið. Í fyrra hófust veiðar fyrr og við á Síldarvinnsluskipunum vorum búnir með kvótann í byrjun september. Sjálfsagt eru göngur makrílsins að einhverju leyti breytilegar á milli ára en ljóst er að það var mikið magn af honum við landið í ár eins og mælingar sýndu,“ sagði Hálfdán að lokum.
 
Nú munu Síldarvinnsluskipin Börkur og Beitir snúa sér að veiðum á norsk-íslenskri síld.
 
Ekkert lát er á löndunum vinnsluskipa í Neskaupstað. Í dag er Hákon EA að landa 650 tonnum af frystum makríl og síld og síðastliðinn þriðjudag landaði Vilhelm Þorsteinsson EA 550 tonnum. Kristina EA landaði á laugardag og sunnudag 2340 tonnum og er það án efa stærsti farmur af frystum afurðum sem íslenskt fiskiskip hefur komið með að landi.

Barði NK á ísfisk

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK hélt til Akureyrar í lok ágústmánaðar þar sem starfsmenn Slippsins hófu að fjarlægja úr honum vinnslubúnað á vinnsluþilfari og koma síðan fyrir búnaði til meðhöndlunar á ísfiski. Barða er ætlað að taka við hlutverki ísfisktogarans Bjarts sem seldur var til íransks fyrirtækis fyrir skömmu. Framkvæmdirnar um borð í Barða gengu samkvæmt áætlun og er hann væntanlegur til Neskaupstaðar í dag. Síðan er ráðgert að hann haldi til veiða á laugardaginn. Áhöfnin á Bjarti mun færast yfir á Barða en áhöfnin sem var á Barða mun færast yfir á frystitogarann Blæng. Blængur er nú á Akureyri þar sem starfsmenn Slippsins vinna við að koma fyrir í honum vinnslubúnaði á vinnsluþilfari.

Síldarvinnslan eykur eignarhlut sinn í Runólfi Hallfreðssyni ehf.

Bjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonSíldarvinnslan hefur aukið eignarhlut sinn í útgerðarfélaginu Runólfi Hallfreðssyni ehf. sem gerir út uppsjávarskipið Bjarna Ólafsson AK. Nú á Síldarvinnslan rúmlega 75% í félaginu en bræðurnir og skipstjórarnir Gísli og Runólfur Runólfssynir eiga tæplega 25%.
 
Stofnendur útgerðarfélagsins voru hjónin Runólfur Hallfreðsson og Ragnheiður Gísladóttir en þegar þau voru fallin frá áttu börn þeirra 62% í félaginu. Þrjú barnanna ákváðu að selja sína eignarhluta í félaginu nú í haust og festi Síldarvinnslan kaup á þeim, en Síldarvinnslan hefur átt 38% í félaginu frá árinu 2003 eða frá samrunanum við SR-mjöl. 
 
Gísli Runólfsson segir að ánægja ríki með þessi málalok. „Við höfum verið að vinna með Síldarvinnslunni um langt skeið og það samstarf hefur verið afar gott og farsælt. Við bræðurnir og áhöfnin á Bjarna Ólafssyni teljum að það hafi vart verið hægt að hugsa sér betri niðurstöðu. Þetta tryggir að Bjarni Ólafsson verði gerður út með líkum hætti og hefur verið og allt samstarf um útgerð hans hefur verið traust og til fyrirmyndar að mínu mati,“ sagði Gísli.