Síldarvinnslan styrkir Golfklúbb Norðfjarðar

DSC02950 a

Við undirritun styrktarsamningsins. Talið frá vinstri: Eiríkur Þór Magnússon varaformaður G.N., Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Gunnar Ásgeir Kalrsson formaður G.N. Ljósm.: Hákon Ernuson.

                Í dag var undirritaður nýr styrktarsamningur á milli Síldarvinnslunnar og Golfklúbbs Norðfjarðar. Samningurinn er til þriggja ára og felur meðal annars í sér að Síldarvinnslan styrkir sérstaklega unglingastarf klúbbsins. Þá mun klúbburinn standa fyrir golfmóti um verslunarmannahelgina sem kennt verður við Neistaflug og Síldarvinnsluna.

                Samninginn undirrituðu Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Gunnar Ásgeir Karlsson formaður Golfklúbbs Norðfjarðar. Gunnþór sagði við það tækifæri að Síldarvinnslan væri stolt yfir því að styrkja starfsemi klúbbsins enda væri þar vel að öllum málum staðið. Gunnar Ásgeir Karlsson sagði að það væri ómetanlegt fyrir klúbbinn að eiga jafn sterka stuðningsaðila og Síldarvinnslan væri. „Stuðningur við unglingastarf klúbbsins er ómetanlegt og það er mikilvægt fyrir framtíð golfiðkunar á staðnum. Það hefur líka  skapast sú skemmtilega hefð á golfmótinu um verslunarmannahelgina að Síldarvinnslan býður þá upp á síldarhlaðborð fyrir keppendur og gesti. Þannig birtist samstarf Síldarvinnslunnar og klúbbsins í ýmsum myndum. Ég vil fyrir hönd klúbbsins koma á framfæri innilegum þökkum til Síldarvinnslunnar fyrir þann myndarlega styrk sem hún hefur veitt klúbbnum á undanförnum árum. Framlag fyrirtækisins er svo sannarlega höfðinglegt,“ sagði Gunnar Ásgeir að lokum.

Kennsla hafin í Sjávarútvegsskóla Austurlands

IMG 0982 3

Nemendur og kennarar Sjávarútvegsskóla Austurlands í Neskaupstað. Ljósm: Sigurjón Mikael Jónuson

Kennsla í Sjávarútvegsskóla Austurlands hófst í Neskaupstað sl. mánudag en kennsla á vegum skólans mun fara fram á sex stöðum á Austurlandi í sumar.

                Í Neskaupstað eru 17 nemendur í skólanum og eru þeir allir fæddir árið 2001. Í upphafi sóttu nemendur fyrirlestra um sögu útgerðar og fiskvinnslu ásamt því að fjallað var um núverandi stöðu sjávarútvegs og tækifæri greinarinnar í framtíðinni. Í kjölfarið var frætt um markaðs- og gæðamál og kynnt öll þau fjölbreytilegu störf sem unnin eru innan sjávarútvegsins. Til hliðar við fyrirlestrana hefur verið efnt til heimsókna um borð í fiskiskip og einnig í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar og frystigeymslur fyrirtækisins. Framundan er stíf dagskrá en kennslunni í Neskaupstað mun ljúka á föstudag.

                Heimasíðan hitti tvo nemendur skólans að máli í gær en það voru þau María Bóel Guðmundsdóttir og Andri Snær Sigurjónsson. Þau voru sammála um að skólinn væri bæði skemmtilegur og fróðlegur, einkum væri gaman að fara í heimsóknir um borð í skip og á vinnustaði. „Við fórum um borð í Börk og Birting og skoðuðum fiskiðjuverið og frystigeymslurnar. Síðan verður farið í heimsókn í Verkmenntaskóla Austurlands á morgun og fræðst um hvernig unnt er að mennta sig til starfa í sjávarútvegi. Það hefur komið okkur mjög á óvart hve störfin eru fjölbreytt og ólík. Á morgun heimsækjum við einnig Matís og fræðumst um rannsóknir á fiski og mjöli og fleiru. Á föstudag förum við síðan í ferðalag til Eskifjarðar og Fáskrúðsfjarðar og heimsækjum fiskimjölsverksmiðju Eskju og netagerðina Egersund á Eskifirði og hraðfrystihús Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Þetta verður örugglega skemmtileg ferð. Það er margt sem hefur verið fjallað um í skólanum og komið okkur á óvart. Til dæmis hve sjávarútvegur er  að skapa mikil verðmæti og hve markaðir fyrir vörurnar eru fjölbreytilegir. Það var mjög gaman að fá fyrirlestur um markaðsmál og fræðast um það hvernig fiskurinn er matreiddur með allt öðrum hætti en við eigum að venjast. Við viljum hvetja alla krakka á Austurlandi sem fæddir eru 2001 til að skrá sig í skólann. Það ætti enginn að sjá eftir því. Svo eru líka kennararnir nokkuð skemmtilegir og það skemmir ekki fyrir,“ sögðu þau María Bóel og Andri Snær.

                Að sögn forsvarsmanna skólans, þeirra Sigurðar Steins Einarssonar og Sylvíu Kolbrár Hákonardóttur, hefur skólinn farið frábærlega af stað og nemendur í Neskaupstað verið mjög áhugasamir. Segjast þau hlakka til að kenna á öðrum stöðum á Austurlandi og vilja skora á unglinga sem fæddir eru á árinu 2001 að skrá sig í skólann. Skráning fer fram á www.sjavarskoli.net.

Áhöfnin á Beiti NK styrkir Björgunarsveitina Gerpi

Áhöfn Beitis NK afhendir styrk til Björgunarsveitarinnar Gerpis. Ljósm. Hákon ErnusonÁhöfn Beitis NK afhendir styrk til Björgunarsveitarinnar Gerpis.Síldarvinnslan hefur um árabil lagt mikla áherslu á öryggismál starfsfólks og þá ekki síst öryggismál sjómanna. Sérhver starfseining fyrirtækisins sem hefur státað af slysalausu ári hefur síðan fengið ákveðna peningaupphæð afhenta sem viðurkenningu fyrir árangursríkt starf á sviði öryggismála. Árið 2014 var slysalaust ár hjá áhöfninni á Beiti NK og fékk hún 600 þúsund krónur frá fyrirtækinu í viðurkenningarskyni. Áhöfnin tók ákvörðun um að láta Björgunarsveitina Gerpi í Neskaupstað njóta þessarar peningaupphæðar og skyldi sjóbjörgunardeild sveitarinnar fá hana til ráðstöfunar. Áhöfnin á Beiti afhenti fulltrúa Björgunarsveitarinnar peningaupphæðina um borð í skipinu á sjómannadaginn.

Grafískur hönnuður á Barða gerir merki fyrir Sjávarútvegsskóla Austurlands

Jón Ingi Sigurðsson. Ljósm. Hákon ErnusonJón Ingi Sigurðsson. Ljósm. Hákon ErnusonNú á tímum þykir sjálfsagt að öll fyrirtæki og allar stofnanir eigi sitt eigið merki eða logo og merkið á gjarnan að gefa vísbendingu um eðli starfsemi viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Sjálfsagt þótti að gert yrði merki af þessu tagi fyrir Sjávarútvegsskóla Austurlands og þá var ákveðið að leita ekki langt yfir skammt. Jón Ingi Sigurðsson háseti á Barða NK er menntaður grafískur hönnuður og var leitað til hans um að gera merki fyrir skólann. Jón Ingi tók erindinu fagnandi og lét hendur standa fram úr ermum. Niðurstaðan fylgir þessari frétt og þykir hún vel heppnuð. Jón Ingi lýsir merkinu sem fjörlegu og eigi litavalið og útfærslan að höfða til þess aldurshóps sem sækir skólann. Reynt var að hafa merkið einfalt með mjúkum línum og átti það að gefa skýra vísbendingu um hlutverk skólans. Letrið í merkinu er hins vegar sterkt og stöndugt.
 
Forsvarsmenn Sjávarútvegsskólans eru afar ánægðir með nýja merkið og mun það meðal annars prýða peysur sem allir væntanlegir nemendur skólans fá afhentar.
 
Hið nýja merki skólans.Hið nýja merki skólans.Jón Ingi Sigurðsson er Dalvíkingur að uppruna en bjó á Akureyri til skamms tíma. Á Akureyri starfaði hann við grafíska hönnun og auglýsingagerð í sjö ár en sjómennska togar ávallt í hann. Hann hefur verið á ýmsum fiskiskipum fyrir norðan en fór sinn fyrsta túr á Barða fyrir rúmlega ári síðan. Jón Ingi og fjölskylda hans er nýlega flutt búferlum til Neskaupstaðar. „Það var létt ákvörðun að flytja til Neskaupstaðar. Mér líkar afar vel á Barða og konan mín, Hugrún Ágústsdóttir, er hjúkrunarfræðingur og fólk með slíka menntun er eftirsótt hér. Við komum austur fyrir tæplega tveimur vikum þannig að börnin tvö fengu að kynnast jafnöldrum í skólanum og það gekk eins og í sögu. Það hefur verið frábærlega vel tekið á móti okkur og brátt mun þriðja barnið bætast í hópinn. Tvö elstu börnin okkar eru uppkomin og þau eru fyrir norðan. Okkur líst vel á framtíðina hér eystra,“ sagði Jón Ingi.