Í nýútkominni samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar eru stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þeirra verða birt hér á heimasíðunni og hér er viðtal við Ríkharð Zoёga Stefánsson kokk á Bergi VE.
Ríkharður Zoëga Stefánsson er Reykvíkingur sem kom fyrst til Vestmannaeyja 14 ára gamall. Þá bjó hann hjá systur sinni í Eyjum. Hann fór aftur til Reykjavíkur til að klára skóla en síðan var hið snarasta haldið til Eyja á ný og Ríkharður hefur búið í Vestmannaeyjum frá árinu 1975. Í fyrstu starfaði hann hjá Ísfélaginu en árið 1977 fór hann á sjó í fyrsta sinn á gömlu Vestmannaey. Síðan gerðist Ríkharður verkstjóri hjá Ísfélaginu og sinnti því starfi í tvö ár. Sjórinn togaði og árið 1979 fór hann á Klakkinn og þaðan á ný á Vestmannaey. Þegar Bergur – Huginn, félag Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns, festi kaup á Bergey fluttist hann yfir á hana og var þar í ein 10 ár. Þá fór hann á flakk á milli skipa næstu árin. Ríkharður réðst á Smáey árið 1997 og síðan hefur hann verið hjá Bergi – Hugin og hefur hugsað sér að klára sjómannsferilinn hjá því félagi. Þegar Ríkharður er spurður hvernig honum líki á sjónum stendur ekki á svari. „Ég er búinn að vera 45 ár á sjó hjá sama fyrirtækinu og það segir bara það að mér líkar vel. Nú er ég kokkur á Bergi og hann er gerður út af Bergi ehf en í reynd er um að ræða sömu útgerðina. Ég nýt mín vel í því starfinu mínu. Ég er örugglega frekar íhaldssamur kokkur og býð upp á hefðbundinn íslenskan mat. Það er til dæmis fiskur fjórum sinnumí viku. Bergur er flott skip. Það var smíðað árið 2019 og er 29 metra langt. Svona skip eru gjarnan nefnd „þriggja mílna bátar.“ Öll vinnuaðstaða á Bergi er til fyrirmyndar og frábært að vinna í eldhúsinu um borð.“
Þegar Ríkharður er spurður um hvaða breytingar hafi átt sér stað þegar Síldarvinnslan festi kaup á Bergi – Hugin árið 2012 stendur ekki á svari. „Það breyttist ýmislegt og allt sem gerðist var jákvætt. Það var afskaplega gott að vera hjá Magnúsi Kristinssyni en þegar Síldarvinnslan festi kaup á félaginu var til staðar meiri kvóti og laun okkar sjómannanna hækkuðu um 30% eða svo. Ég man að við vorum í aðgerð úti á sjó þegar við fengum fréttirnar um að Síldarvinnslan væri bún að festa kaup á útgerðinni og margir í áhöfninni urðu mjög áhyggjufullir. Tveir eða þrír í áhöfninni hættu í kjölfar fréttanna og leist ekkert á. En allar áhyggjur reyndust óþarfar og það hefur allt gengið afskaplega vel eftir að Síldarvinnslan kom til sögunnar. Það er gott að vinna hjá þessu fyrirtæki og mér líður einstaklega vel í starfi. Nú er ég 65 ára og á því ekki mörg ár eftir á sjónum. Einhvern tímann kemur að því að maður þarf að hægja á sér. Það er líka full ástæða til að minnast á það að lífið er meira en sjómennska. Ég hef reynt að láta gott af mér leiða og til dæmis tekið þátt í félagsstörfum sjómanna. Ég hef verið varaformaður Sjómannafélagsins
Jötuns og mér hlotnaðist sá heiður að skrifa undir kjarasamninga sjómanna nú í febrúar. Ég er sannfærður um að það eru góðir samningar. Ég hef einnig átt sæti í sjómannadagsráði hér í Eyjum í ein 20 ár og ég held að enginn annar hafi átt sæti jafn lengi í ráðinu. Það er svo skemmtilegt að vinna við hátíðarhöld sjómannadagsins að ég tími ekki að hætta. Fyrir utan þetta er ég í Kiwanis og er einnig virkur tómstundamálari. Lífið býður upp á svo margt fyrir utan vinnuna.“