Gullver NS kemur til hafnar í Eyjum á síðasta degi vetrar.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði í Vestmannaeyjum á síðasta degi vetrar. Aflinn var 85 tonn, meirihlutinn ýsa en einnig karfi. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og spurði fyrst hvort ekki hefði gengið vel að fiska. “Jú, það er ekki hægt að segja annað. Staðreyndin er sú að við þurftum að skammta okkur afla. Það þurfti að taka tillit til þess hve áhöfnin kæmi miklu í gegn. Það var einfaldlega mokveiði. Við hófum veiðar á Öræfagrunni og héldum síðan í Grindavíkurdýpið þar sem tekin voru þrjú karfahol. Það var töluvert langt fyrir okkur að fara að austan og vestureftir, en við vorum einungis í tvo sólarhringa að veiðum í túrnum,” segir Hjálmar Ólafur.

Samkvæmt öruggum heimildum er þetta í fyrsta sinn sem Gullver landar bolfiski í Vestmannaeyjum, en hins vegar landaði hann þar makríl þrisvar eða fjórum sinnum sumarið 2014. Þá var makríllinn veiddur í Skerjadýpinu, Grindavíkurdýpinu og á Selvogsbanka.