Aldrei áður séð vaðandi loðnu á vetrarvertíð

Polar Amaroq að veiðum vestur af Öndverðarnesi.  Ljósm Kristján Már UnnarssonPolar Amaroq að veiðum vestur af Öndverðarnesi.
Ljósm Kristján Már Unnarsson
Hinn 6. mars sl. fann grænlenska skipið Polar Amaroq stóra loðnutorfu undir Látrabjargi. Þarna óð loðnan og segir Geir Zoëga skipstjóri að hann hafi aldrei áður séð vaðandi loðnu á vetrarvertíð. „Þetta var vaðandi hrygningarloðna og torfan var býsna stór. Líklega var hún 1 km á kant eða svo, eða um 1.000.000 fermetrar. Það var gríðarlegt líf þarna og það var svo mikið af fugli að fuglagerið sást greinilega á radar. Ljóst var að þarna var loðnan að gera sig klára til hrygningar og  þarna um kvöldið lagðist hún og hrygndi. Við köstuðum með litlu loðnunótinni og fengum svo mikið að við sprengdum, nótin rifnaði öll. Sem betur fer erum við með tvær nætur um borð og kláruðum vertíðina vestur af Öndverðarnesi með stóru nótinni. Þetta er búin að vera flott loðnuvertíð þrátt fyrir lítinn kvóta því verð eru mjög há. Það hefur verið hagstætt tíðarfar og svo hefur líka víða verið loðna þannig að það hafa aldrei verið vandræði að fiska. Við á Polar Amaroq erum búnir að veiða 6.747 tonn á vertíðinni og nú fara menn að undirbúa skipið fyrir kolmunnann,“ segir Geir.

Torfan undir Látrabjargi sést á „asdikkinu“ hægra megin en fuglagerið á radarnum vinstra megin.  Ljósm. Geir ZoëgaTorfan undir Látrabjargi sést á „asdikkinu“ hægra megin en fuglagerið á radarnum vinstra megin. Ljósm. Geir Zoëga  

Það er alltaf spenna þegar kastað er á loðnutorfu og fagnað þegar torfan reynist vera inni.  Það er Sigurður Grétar Guðmundsson stýrimaður sem fagnar.  Ljósm. Geir ZoëgaÞað er alltaf spenna þegar kastað er á loðnutorfu og fagnað þegar torfan reynist vera inni. Það er Sigurður Grétar Guðmundsson stýrimaður sem fagnar. Ljósm. Geir Zoëga

Börkur á leiðinni með síðasta farm vertíðarinnar

Börkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonLoðnuvertíðinni er að ljúka. Börkur NK er á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 1.900 tonn og er það síðasti farmurinn sem berast mun til Neskaupstaðar á vertíðinni. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra í morgun en þá var skipið statt út af Alviðruhömrum. „Við lukum við að veiða síðdegis í gær en við fengum aflann í 6 eða 7 köstum 10-12 mílur vestur af Öndverðarnesi. Þetta er loðna sem er alveg komin að hrygningu og jafnvel er einstaka loðna búin að hrygna. Þessi loðnuvertíð hefur gengið alveg ótrúlega vel. Það hefur verið góð veiði og tíðarfarið hefur verið einstaklega gott. Ein suðvestan bræla um þetta leyti getur eyðilagt hrognavertíðina þannig að veðrið skiptir afar miklu máli. Við gerum ráð fyrir að koma til Neskaupstaðar um miðnætti,“ segir Hálfdan.
 
Lokið var við að landa 2.200 tonnum af hrognaloðnu úr Beiti NK í gærkvöldi og í morgun hófst löndun úr Polar Amaroq sem kominn var með 1.250 tonn í hrognavinnslu og 650 tonn af frystri loðnu.

Gullver rúmlega hálfnaður í rallinu

Gullver NS leggst að bryggju á Seyðisfirði í gær. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS leggst að bryggju á Seyðisfirði í gær.
Ljósm. Ómar Bogason
Gullver NS kom til Seyðisfjarðar laust fyrir hádegi í gær og landaði þar um 22 tonnum af fiski sem fengist hefur í togararallinu sem skipið tekur þátt í. Heimasíðan ræddi við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig honum líkaði í rallinu. „Þetta er bara fínt og hefur gengið vel. Við erum búnir að vera átta sólarhringa og höfum togað á 84 stöðvum af 151 sem eru á okkar svæði, en það nær alveg frá Kolbeinsey og suður að Hvalbak. Við gerðum ráð fyrir að nota eina 20 daga í þetta en veðrið er búið að vera gott þannig að þetta hefur gengið betur en gert var ráð fyrir. Gullver er að fara í sitt fyrsta rall en Steinþór Hálfdanarson stýrimaður þekkir þetta vel og hefur farið í mörg röllin á Bjarti og Barða. Nú eigum við eftir stöðvarnar fyrir norðan, eða frá Kolbeinsey og austur á Langanesgrunn. Vonandi gengur jafn vel að toga á þeim og á stöðvunum hér fyrir austan,“ segir Rúnar.
 
Gullver mun leggja úr höfn í kvöld og hefja síðari hluta rallsins. Þá mun Þórhallur Jónsson setjast í skipstjórastólinn.

Nýi Börkur í prufutúr

Nýr Börkur fór í prufutúr sl. fimmtudag. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonNýr Börkur fór í prufutúr sl. fimmtudag.
Ljósm. Karl Jóhann Birgisson
Nýi Börkur, sem er í smíðum hjá Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku, fór í prufutúr sl. fimmtudag. Þeir Grétar Örn Sigfinnsson rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri og Leifur Þormóðsson stýrimaður fóru með í túrinn og einnig Karl Jóhann Birgisson og Hörður Erlendsson vélstjóri sem hafa verið úti í Skagen og fylgst með smíði skipsins fyrir hönd Síldarvinnslunnar. Að sögn Grétars gekk prufutúrinn afskaplega vel í alla staði. „Það voru allir í skýjunum. Þetta er rosalega flott skip og það besta sem við höfum séð. Öll vinnubrögð við smíðina eru frábær og ekkert til sparað. Það er afar gott að vinna með Dönunum og Karl Jóhann og Hörður gegna mikilvægu hlutverki við smíðina og eru í reglubundnu sambandi við okkur heima,“ segir Grétar.
 
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri tók undir með Grétari. „Ég held að þessi skip, Börkur og systurskipið Vilhelm Þorsteinsson, séu flottustu skip sem komið hafa til Íslands. Öll smíði á þeim er einstaklega vönduð og þau eru hlaðin búnaði í ríkari mæli en menn hafa kynnst. Í prufutúrnum voru aðalvélarnar tvær álagsprófaðar og meðal annars dælt sjó í allar lestar og í kælikerfi. Um borð voru 28 manns og hver og einn hafði sínu hlutverki að gegna. Skipið fór í 15,5 mílur á annarri vélinni og í 18,8 á báðum. Þarna er um að ræða yfir 9000 hestöfl og krafturinn er ótrúlegur. Það tók til dæmis einungis eina mínútu og átta sekúndur fyrir skipið að fara úr 5 mílum í 15. Við njótum góðs af samvinnu við Samherjamenn en skip þeirra, Vilhelm Þorsteinsson, verður tilbúið á undan Berki. Mér skilst að Vilhelm verði sennilega afhentur í kringum 20. mars en Börkur gæti verið tilbúinn í lok apríl eða byrjun maí. Þessi skipasmíðastöð er fyrirmyndarfyrirtæki og ef þarf að breyta einhverju eða bæta við þá er það ekkert mál. Skipið virkar alveg svakalega stórt. Það er 90,2 metrar að lengd og 16,7 metrar að breidd. Lestarrýmið er yfir 3.500 rúmmetrar þannig að það getur borið um 3.400 tonn að landi. Þetta er svo sannarlega Stóri-Börkur. Vonandi náum við einum kolmunnatúr fyrir sjómannadag til þess að læra á bátinn. Þetta er virkilega spennandi allt saman,“ segir Hjörvar.
 
Karl Jóhann Birgisson hefur fylgst með framkvæmdum við Börk í Skagen síðan í byrjun októbermánaðar og hafa vélstjórarnir, Jóhann Pétur Gíslason og Hörður Erlendsson, dvalið þar með honum til skiptis. Karl Jóhann segir að skipulega sé unnið að öllum verkum í skipinu. „Nú á til dæmis að fara að byrja að mála skipið að innan og í það verk fer 46 manna hópur. Gert er ráð fyrir að málningarvinnan taki sex vikur. Það er vel að öllum verkum staðið og auðvitað skiptir máli fyrir skipasmíðastöðina að skipið klárist sem fyrst. Eins og ég hef áður sagt njótum við þess að framkvæmdir við systurskipið Vilhelm Þorsteinsson eru á undan þannig að ekkert kemur á óvart við framkvæmdir í Berki. Ég geri ráð fyrir að verða hér í Skagen allt til enda og mínu verki hér mun ljúka við afhendingu skipsins,“ segir Karl Jóhann.