Mikill brælutúr

Blængur NK kemur til hafnar. Ljósm. Smári GeirssonBlængur NK kemur til hafnar. Ljósm. Smári GeirssonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í morgun að aflokinni 15 daga veiðiferð. Afli skipsins var 350 tonn upp úr sjó að verðmæti 104 milljónir króna. Uppistaða aflans var karfi, þorskur og ufsi. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig veðrið hefði verið í veiðiferðinni. „Þetta var mikill brælutúr. Veðrið var vissulega misjafnlega slæmt en það fór aldrei niður fyrir 15-20 metra. Við byrjuðum á að sigla vestur fyrir land og hófum veiðar á Vestfjarðamiðum. Þar var unnt að vera í eina fimm daga en þá gerði vitlaust veður og þá var haldið austur fyrir land. Undir lokin veiddum við síðan úti fyrir suðurströndinni. Við vorum á eilífum flótta undan veðrinu. Það má auðvitað gera ráð fyrir svona veðurlagi á þessum árstíma, það er víst vetur,“ segir Bjarni Ólafur.
 
Landað verður úr Blængi í dag og í kvöld verður haldið af stað til Akureyrar þar sem framundan er mánaðar slippur. Gert er ráð fyrir að skipið haldi á ný til veiða 29. janúar.

Vinnan í nýjum Berki á áætlun

Nýi Börkur í Skagen. Um borð í skipinu starfa 160-170 manns á hverjum degi. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonNýi Börkur í Skagen. Um borð í skipinu starfa 160-170 manns á hverjum degi. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonÞeir Karl Jóhann Birgisson og Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri hafa dvalið í Skagen í Danmörku í tvo og hálfan mánuð þar sem þeir hafa fylgst með framkvæmdum um borð í nýjum Berki sem er í smíðum hjá Karstensens Skibsværft. Þeir félagar komu til landsins í jólafrí 12. desember sl. og er gert ráð fyrir að Karl Jóhann og Hörður Erlendsson vélstjóri haldi til Skagen eftir áramótin þegar framkvæmdir við skipið hefjast á ný fyrir alvöru. Heimasíðan ræddi stuttlega við Karl Jóhann og spurði frétta. „Skipið liggur í Skagen og þar er unnið um borð af miklum krafti. Að undanförnu hafa um 160-170 manns starfað um borð í skipinu og til viðbótar er unnið á verkstæðum að verkefnum sem tengjast framkvæmdum um borð. Það er afar gott skipulag á framkvæmdunum. Verkfundir eru haldnir reglulega og skipinu er skipt upp í svæði og á hverju svæði er verkstjóri sem ber ábyrgð á öllu sem þar fer fram. Það gengur allt snurðulaust fyrir sig og það er í reynd aðdáunarvert hvernig að málum er staðið. Verkið er á áætlun og samkvæmt henni  á skipið að fara í prufusiglingu í lok febrúar og afhending þess að eiga sér stað í apríl. Ýmislegt getur þó raskað áætluninni og það er þá helst covid. Jóhann Pétur fylgist grannt með öllum framkvæmdum sem snerta vélar og tæki. Hann dvelur löngum stundum í vélarrúminu þar sem meðal annars þarf að ganga frá tveimur aðalvélum og tveimur ljósavélum. Á dögunum var gengið frá öllum krönum og vindum í skipinu og vóg sá búnaður hvorki meira né minna en 200 tonn. Hafa skal í huga að við framkvæmdir um borð í Berki njótum við þess að systurskipið, Vilhelm Þorsteinsson, er einnig í smíðum hjá Karstensens og framkvæmdir þar eru lengra komnar. Vilhelm fór til dæmis í prufusiglingu á dögunum sem gekk afar vel. Það auðveldar ýmislegt hjá okkur að vera skip númer tvö,“ segir Karl Jóhann.

Lokið er við að koma krönum og vindum fyrir í skipinu. Sá búnaður vóg 200 tonn. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonLokið er við að koma krönum og vindum fyrir í skipinu. Sá búnaður vóg 200 tonn. Ljósm. Karl Jóhann Birgisson

Eyjarnar komnar í jólafrí

Eyjarnar lönduðu í gær og eru komnar í jólafrí. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonEyjarnar lönduðu í gær og eru komnar í jólafrí.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, komu báðir með fullfermi til Vestmannaeyja í gær. Aflinn var mestmegnis þorskur og ýsa sem fékkst fyrir austan land. Heimasíðan ræddi stuttlega við Egil Guðna Guðnason sem var skipstjóri á Vestmannaey í veiðiferðinni. „Við vorum að veiða á Gerpisflakinu í skítaveðri. Aflinn fékkst á fjórum dögum en megnið af honum kom þó á einum og hálfum sólarhring. Það voru yfir 20 metrar allan tímann sem við vorum þarna og svo fengum við 30 metra norðaustan á leiðinni heim til Eyja. Bergey var á alveg sama róli og við,“ segir Egill Guðni.
 
Eyjarnar eru nú komnar í jólafrí og munu ekki halda á ný til veiða fyrr en 2. janúar. Í því sambandi er rétt að rifja upp að skipin héldu ekki til veiða eftir síðasta jólafrí fyrr en 13. janúar vegna veðurofsa.

Kolmunni berst að landi

Beitir NK og Börkur NK í stórrigningunni í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK og Börkur NK í stórrigningunni í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gærkvöldi með 2250 tonn af kolmunna eða fullfermi. Beitir NK kom síðan í morgun með 3050 tonn. Gert er ráð fyrir að landað verði úr skipunum jafnóðum og hráefnið er unnið því betra er að geyma það kælt um borð í þeim en í hráefnistönkum fiskimjölsverksmiðjunnar.
 
Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Berki segir að veiðarnar hafi gengið nokkuð vel. „Við vorum að veiða á gráa svæðinu suður af Færeyjum alveg við skosku línuna. Þar var flotinn að veiðum. Aflann fengum við í sjö holum en við vorum sex daga að veiðum. Fiskurinn sem þarna fæst er stór og góður,“ segir Hálfdan.
 
Tómas Kárason skipstjóri á Beiti tekur undir með Hálfdani og segir að um ágætan fisk sé að ræða. „Við fengum aflann í 11 holum, en reyndar var lítið í fyrsta holinu. Holin voru gjarnan að gefa 300-350 tonn og einu sinni fengum við 450 tonna hol. Það var dregið í 15-24 tíma,“ segir Tómas.
 
Skipin munu ekki halda á ný til veiða fyrr en eftir hátíðar, en fram kom hjá skipstjórunum að áhafnirnar bíði spenntar eftir fréttum úr loðnuleiðangrinum sem nýlega er lokið.