Landað úr Gullver NS. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogarinn Gullver NS er að landa í Hafnarfirði í dag. Afli skipsins er 122 tonn, mest þorskur en einnig ýsa, karfi, ufsi og langa. Hjálmar Ólafur Bjarnason skipstjóri er sáttur við veiðiferðina. “Það var ágætis fiskirí allan tímann, en það fiskast betur á daginn en á nóttunni. Við héldum til veiða frá Eyjum á miðvikudagskvöld og vorum fimm daga á veiðum. Við veiddum á Eldeyjarbanka, Flugbrautinni og einnig á Reykjanesgrunni og Tánni. Það var bongóblíða allan túrinn og allir hressir með hann. Við förum út strax að löndun lokinni og það verður væntanlega veitt áfram á svipuðum slóðum,” segir Hjálmar Ólafur.