Makríllinn sem veiðist er stór og falllegur. Ljósm. Hákon Ernuson

Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað var lokið við að vinna rúm 1.300 tonn úr Barða NK sl. nótt og nú er Beitir kominn með rúm 1.500 tonn og vinnsla úr honum hafin. Vinnslan er fjölbreytt því fiskurinn er ýmist heilfrystur, hausaður eða flakaður. Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins, segir að vinnslan gangi mjög vel. “Það er myljandi gangur í þessu og ekki undan neinu að kvarta. Fiskurinn sem við erum nú að vinna úr Beiti er afar góður,” segir Geir Sigurpáll.

Nú er lokið við að veiða um þriðjung þess kvóta sem Síldarvinnslu- og Samherjaskipin fimm í veiðisamstarfinu hafa til umráða. Veidd hafa verið um 12.400 tonn. Vart verður annað sagt en að vertíðin hafi gengið vel þó töluvert þurfi að hafa fyrir veiðunum. Nánast öll veiðin hefur farið fram innan íslenskrar lögsögu sem meðal annars gerir það að verkum að gæði fisksins sem skipin færa að landi eru betri en ef veiðin færi fram á fjarlægari miðum.