Gullver NS í höfn í Þórshöfn í Færeyjum.
Ljósm. Gunnlaugur Hafsteinsson

Ísfisktogarinn Gullver NS var í Færeyjum í um mánaðartíma þar sem ýmsum viðhaldsverkefnum í skipinu var sinnt. Skipið lagði af stað til Seyðisfjarðar á laugardagskvöld en þangað er rúmlega sólarhrings sigling. Heimasíðan sló á þráðinn til Færeyja og ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra. Fyrst var spurt hvað hefði verið gert í skipinu. „Það voru ýmis verkefni á dagskrá. Það þurfti að taka upp aðalvél og ljósavél og þá hefur töluverð járnavinna farið fram. Eins ber að nefna að eldhúsið í skipinu var algerlega endurnýjað þannig að kokkurinn er búinn að fá fyrirmyndaraðstöðu. Við fórum sex að sækja skipið og auðvitað hefur verið gott að vera hér á meðal frænda okkar. Strax og komið verður til Seyðisfjarðar verður skipið karað og veiðarfæri tekin um borð. Síðan verður haldið beint til veiða,“ segir Þórhallur.

Gullversmenn komnir til Færeyja að sækja skipið. Talið frá vinstri: Þórhallur Jónsson skipstjóri, Jón Eldjárn Bjarnason vélstjóri, Jóhann Bremnes vélstjóri, Gunnlaugur Hafsteinsson yfirvélstjóri og Pálmi Jónsson matsveinn. Valgarður Freyr Gestsson stýrimaður tók myndina