Jóhann Óli Ólafsson á Beiti NK tekur glaður á móti góðum afla. Ljósm. Ingvar Ísfeld Kristinsson

Í fyrrinótt hófu makrílskipin að afla ágætlega í Smugunni en um tíma hafði veiði verið treg og mikill tími farið í leit. Eftir að veiði hófst fyrir alvöru var afla Síldarvinnslu- og Samherjaskipanna sem eru í veiðisamstarfi dælt um borð í Barða NK. Barði er nú á landleið til Neskaupstaðar með 1.400 tonn og er væntanlegur þangað í nótt. Þegar lokið var við að dæla afla um borð í Barða hófst dæling í Beiti NK og er hann á leið til Álasunds í Noregi með 840 tonn. Mun Beitir hefja löndun þar í fyrramálið. Næst hófu skipin að dæla afla í Vilhelm Þorsteinsson EA og var hann kominn með 860 tonn um borð í morgun. Frést hefur að nú hafi einnig veiðst makríll í íslenskum sjó þannig að það er víða mikið um að vera hjá makrílskipunum. Heimasíðan ræddi stuttlega við Þorkel Pétursson , skipstjóra á Barða, í morgun og spurði hann hvernig veiðiferðin hefði gengið fyrir sig. “Til að byrja með var mikið leitað með litlum árangri. Síðan brast á hörkuveiði. Fiskurinn þétti sig skyndilega þar sem við vorum í Smugunni og það merkilega er að það sama gerðist innan íslensku lögsögunnar í um 300 mílna fjarlægð frá okkur. Þegar tók að veiðast kom í reyndinni miklu meira í veiðarfærin en menn gerðu sér grein fyrir þannig að fyrstu holin voru heldur stærri en menn vildu. Frá miðunum í Smugunni til Neskaupstaðar er um 450 mílna sigling þannig að þetta eru langar vegalengdir. Þá má geta þess að nú höfum við verið úti í 13 daga og verðum búnir að fara 2.500 mílur í túrnum þegar við komum til löndunar. Þá er allt með talið, sigling á miðin, sigling til löndunar, leit og veiðar. En hér um borð eru menn býsna hressir, veiðin gekk afar vel undir lokin og það virðist vera mikið af fiski. Það er eiginlega ekki hægt að biðja um meira,” segir Þorkell.