Karl Rúnar Róbertsson gæðastjóri, Jóhannes Már Jóhannesson
sölustjóri og Geir Sigurpáll Hlöðversson rekstrarstjóri með
uppáskrifað innflutningsleyfi til Aserbædsjan.
Ljósm. Hákon Ernuson

Töluvert hefur verið selt af frystum makríl frá Íslandi til Aserbædsjan á síðustu árum. Aserbædsjan er ríki við Kaspíahafið og eru íbúar þess rúmlega 10 milljónir. Ríkið er múslimskt en mjög frjálslynt sem slíkt. Olíuframleiðsla hefur lengi verið mikilvægur þáttur í efnahagslífi Asera.

Í byrjun þessa árs bárust þær fréttir að matvælaeftirlitið í Aserbædsjan væri að herða kröfur til þeirra fiskvinnslufyrirtækja sem seldu framleiðslu sína þangað. Jóhannes Már Jóhannesson, sölustjóri hjá Ice Fresh Seafood segir svo frá: “Aserar ákváðu að gera sérstakar kröfur til allra vinnslufyrirtækja sem seldu þangað framleiðslu sína. Kröfðust þeir sérstakrar úttektar á hverju fyrirtæki en áður höfðu þeir látið svonefnt Haccp – kerfi duga sem staðfest væri af Matvælastofnuninni (MAST) hér á landi. Þarna virtust þeir vera að setja upp sama kerfi og Rússar höfðu innleitt á sínum tíma. Þegar haft var samband við MAST hafði stofnunin heyrt ávæning af þessu en illa gekk að fá nákvæmar upplýsingar um kröfurnar frá yfirvöldum í Aserbædsjan. Síldarvinnslan og Ice Fresh Seafood ákváðu þá að vinna málið áfram í samráði við okkar stærsta viðskiptavin í Aserbædsjan. Jafnfram héldum við MAST upplýstu um það sem var verið að gera. Við tók frekar ruglingslegt ferli. Fyrst ætluðu Aserar að koma hingað til lands og taka út fiskiðjuverið í Neskaupstað. Það þótti hins vegar of mikið mál og þá var ákveðið að efna til fjarfundar með fulltrúum MAST. Ekkert varð af þeim fundi. Á endanum var ákveðið að gera myndband um fiskiðjuverið í Neskaupstað þar sem sýnd var öll aðstaða. Á grundvelli myndbandsins og með útfyllingu á allmörgum skjölum fékk Síldarvinnslan innflutningsleyfi til Aserbædsjan í lok febrúarmánaðar. Síldarvinnslan er fyrsta fiskvinnslufyrirtækið á landinu sem hefur fengið slíkt leyfi og samkvæmt upplýsingum frá MAST hefur ekkert annað fyrirtæki hér á landi fengið leyfið,” segir Jóhannes Már.

Það voru þeir Geir Sigurpáll Hlöðversson rekstarstjóri fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar og Karl Rúnar Róbertsson gæðastjóri sem sáu um gerð umrædds myndbands. Karl segir að í því hafi verið farið í gegnum allan vinnsluferilinn í fiskiðjuverinu, sýnt aðgengi starfsfólks og hreinlætismál öll yfirfarin. “Við reyndum að gera grein fyrir öllum mikilvægustu þáttunum sem teknir eru til skoðunur við leyfisveitingu eins og þessa og þetta virðist hafa dugað í þessu tilfelli,” segir Karl Rúnar.