Fyrsti makríll vertíðarinnar, sem Beitir NK kom með í gær, er stór og fallegur. Ljósm. Hákon Ernuson

Beitir NK kom með fyrsta makrílfarm vertíðarinnar til heimahafnar í Neskaupstað í gær. Aflinn var tæp 500 tonn og hófst vinnsla strax í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan spurði Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, hvernig þessa fyrsta veiðiferð hefði gengið. “Eins og venjulega fer þetta frekar rólega af stað. Aflann fengum við í fimm holum um það bil 50 sjómílur austsuðaustur af Rauðatorginu. Þetta er vel inni í íslensku lögsögunni eða um 20 – 30 mílur frá færeysku miðlínunni. Í fyrsta holinu fengum við blöndu af makríl og síld en síðan fékkst hreinn makríll. Þetta er stór og flottur makríll, yfir 500 grömm og allt upp í 560 grömm. Mér líst bara vel á vertíðina og ég reikna með að það verði haldið á ný til veiða strax að löndun lokinni,” segir Tómas.

Karl Rúnar Róbertsson, gæðastjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, segir að makríllinn úr Beiti sé ágætur fiskur. “Hann er stór og meðalþyngdin er um 540 grömm. Það er töluverð áta í honum og við erum að hausa fiskinn. Þetta lítur allt vel út. Það tekur alltaf dálítinn tíma að stilla allar vélar þegar vinnsla hefst í upphafi vertíðar en fljótlega var allt komið í fullan gang. Síðan er Vilhelm Þorsteinsson væntanlegur með um 850 tonn úr Smugunni. Makríllinn sem þar fæst er smærri en makríllinn sem fæst í íslensku lögsögunni. Rétt eins og áður virðist það vera stærsti fiskurinn sem gengur lengst í vestur og inn í íslensku lögsöguna,” segir Karl Rúnar.