Landað úr Bergi VE. Ljósm. Arnar Richardsson

Ísfisktogarinn Bergur VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Heimasíðan ræddi við Ragnar Waage Pálmason skipstjóra og spurði hann fyrst um samsetningu aflans. “Í þessum túr var aflinn mest ýsa og síðan töluvert af kola og steinbít. Það var hins vegar lítið af þorski í aflanum og staðreyndin er sú að menn eru að spara þorskinn. Við byrjuðum túrinn á Mýragrunni en þar var heldur rólegt fiskirí. Síðan var haldið á Lónsbugtina og þar fékkst bæði ýsa og koli. Um tíma var bölvað óveður á meðan við vorum í Lónsbugtinni. Versta veðrið stóð í rúman sólarhring og þá sló hann upp í 30 metra. Við héldum síðan á Mýragrunn á ný og tókum tvö síðustu holin þar,” segir Ragnar Waage.

Bergur hélt á ný til veiða strax að löndun lokinni og var stefnan tekin í Skerjadýpið en þangað á að sækja karfa.