Landað úr Blængi NK. Ljósm. Smári Geirsson

Frystitogarinn Blængur NK er að landa í heimahöfn í dag. Afli skipsins er 528 tonn upp úr sjó eða 17.000 kassar af frystum fiski að verðmæti 255 milljónir króna. Aflinn er blandaður; 142 tonn af ýsu, 112 af ufsa, 103 af þorski, 82 af karfa og 74 af grálúðu. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvort hann væri ekki sáttur við túrinn. “Jú, þetta var allt í lagi. Aflinn er góð blanda. Við vildum fá meiri ufsa. Hann fékkst í dálitlum mæli fyrst í túrnum en síðan nánast ekki söguna meir. Hann reynist okkur erfiðir. Þá þurfti mikið að hafa fyrir grálúðunni en það er ekki óalgengt. Það er mikil samkeppni um grálúðuna og oft mörg skip að reyna fyrir sér á grálúðuslóðunum. Í þessum túr vorum við langmest á suðausturmiðum en karfann fengum við þó í Víkurálnum fyrir vestan. Það er vart hægt að segja að það sé sumarveður á sjónum. Í fyrstu vikunni upplifðum við vetrarstorm en síðan lagaðist það. Það er ótrúlegt að slíkt veður skuli standa svo lengi í júnímánuði,” segir Bjarni Ólafur.