Hákon EA kom með fyrstu síldina á vertíðinni til Neskaupstaðar. Ljósm. Smári Geirsson

Síldarvinnsluskipin þrjú, Barði NK, Beitir NK og Börkur NK, eru hætt makrílveiðum. Síðustu daga hefur makríls verið leitað bæði í Smugunni og íslenskri lögsögu með hverfandi árangri. Nú munu skipin snúa sér að veiðum á norsk- íslenskri síldaustur af landinu en vart hefur orðið við vænar síldartorfur þar að undanförnu. Fyrsti síldarfarmurinn barst til Neskaupstaðaraðfaranótt laugardags og hófst síldarvinnsla í fiskiðjuverinu á laugardagsmorgun. Það var Hákon EA sem kom með fyrsta síldarfarminn og hitti heimasíðan Arnþór Pétursson skipstjóra að máli. Arnór var fyrst spurður hvar hefði verið veitt og hvernig veiðin hefði gengið. „Þetta gekk afar vel. Við erum með 700 tonn og fékkst aflinn í fjórum holum. Við vorum með frá 50 tonnum og upp í 290 tonn í holi en togað var í tvo til sex tíma. Aflann fengum við á Glettinganesgrunni og í Seyðisfjarðardýpinu. Það er ekki langt að sækja síldina en þegar veiðunum lauk áttum við 22 mílur í Norðfjarðarhornið. Við leituðum ekkert en höfðum fréttir af síld þarna og reyndar hafa fréttir af síldartorfum borist víða að. Torfurnar, á svæðinu sem við veiddum á, voru ekki stórar en það var þægilegt að eiga við þetta alveg fram í lokin en þá brast á bölvuð bræla. Síldin sem þarna fékkst er um 370 grömm og hentar örugglega vel tilvinnslu. Ég er bjartsýnn á góða síldarvertíð. Sannast sagna þáeru síldveiðarnar hérna úti fyrir Austfjörðunum algjörarlúxusveiðar. Það er svo þægilegt að ná í þessa síld. Nú fáum við nýjan Hákon líklega afhentan í október en hann hefur verið í smíðum hjá Karstensens skipasmíðastöðinni í Danmörku. Það verður svo sannarlega spennandi að veiða á þetta nýja og glæsilega skip,“ segir Arnþór.

Í kjölfar Hákonar kom Börkur NK í gær með 480 tonn af síld og um 260 tonn af makríl. Vinnsla á makrílnum hófst strax og löndun úr Hákoni lauk og síðan hófst vinnsla á síldinni í kjölfarið. Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, segir að það sé síld víða austur af landinu en hún eigi eftir að þétta sig. Börkur fékk síldina í Seyðisfjarðardýpinu og það var bræla allan tímann sem veitt var.