Frosnum makríl er skipað út í Neskaupstað í dag.
Ljósm. Smári Geirsson

Nú er verið að skipa út um 2.000 tonnum af frosnum makríl í Neskaupstað. Stefán Einar Elmarsson, verkstjóri í frystigeymslunum, segir að þetta sé þriðja skipið í sumar sem lesti frosinn makríl frá Síldarvinnslunni og taki þau yfirleitt á bilinu 2.000 – 2.500 tonn. “Það koma mun færri skip en áður til að lesta frosnar afurðir því langmest er flutt í gámum sem fara á Reyðarfjörð í skip. Það er von á tveimur til þremur skipum til viðbótar á næstunni hingað til okkar og gámaflutningarnir munu halda áfram. Frystigeymslur Síldarvinnslunnar hér í Neskaupstað eru hinar stærstu á landinu og rúma þær yfir 18.000 tonn af afurðum. Það hefur ekki verið mjög mikið í geymslunum að undanförnu sem er bein afleiðing af loðnuleysinu. Annars gengur allt vel hjá starfsmönnunum í geymslunum enda um toppmannskap að ræða. Við erum fjórir sem störfum fast í frystigeymslunum en stundum þarf að fá viðbótarmannskap til að leysa verkefnin” segir Stefán.