Margrét EA að landa makríl í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Makrílveiðin hefur verið ærið misjöfn að undanförnu. Oft finnst enginn fiskur en síðan birtist hann í blettum og þá næst einhver veiðiárangur. Síðustu dagana hefur íslenski makrílflotinn verið að leita með hverfandi árangri. Bæði hefur verið leitað í íslenskri lögsögu og í Smugunni. Hafa skal í huga að makrílveiði íslenskra skipa hefur gjarnan lokið í byrjun September á síðustu árum.

Margrét EA kom með 450 tonn af makríl til Neskaupstaðar í gær. Um er að ræða afar fallegan fisk. Oddur Einarsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, segir að nú upp á síðkastið hafi makríllinn verið einstaklega gott hráefni. “Fiskurinn er stór og stæðilegur og feitur og pattaralegur. Þá er afar lítil áta í honum. Það er vart hægt að hugsa sér betra hráefni. Nú er mest heilfryst og síðan er einnig hausað og flakað. Staðreyndin er sú að nú fer að líða að lokum makrílvertíðar ef miðað er við síðustu ár og þá tekur síldarvertíð við. Við fengum fyrsta síldarfarminn til vinnslu í fyrra einmitt um þetta leyti ágústmánaðar. Það hafa þegar borist góðar síldarfréttir frá skipunum,” segir Oddur.