Síldin er hin fallegasta og hentar vel til vinnslu. Ljósm. Smári Geirsson

Fyrsta síldin á nýbyrjaðri vertíð barst til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um nýliðna helgi. Það var Hákon EA sem kom þá með 700 tonn og í kjölfarið kom Börkur NK með 480 tonn. Heimasíðan ræddi við Karl Rúnar Róbertsson gæðastjóra í fiskiðjuverinu og spurði hann hvernig síldin væri og hvernig gengi að vinna hana. “Þetta er fínasta síld. Hún er bæði falleg og feit. Meðalþyngdin er um 370 grömm og það er um 20% fita í henni sem er mjög gott. Núna framleiðum við samflök eða flapsa og það eru sjö flökunarvélar í gangi en síðan heilfrystum við einnig. Síðar munum við svo hefja framleiðslu á roðlausum flökum. Hér er unnið á þrískiptum vöktum og það eru 24 á hverri vakt auk iðnaðarmanna. Starfsfólkið er hörkuduglegt og meirihluti þess hefur góða reynslu af störfunum. Við eigum von á góðri síldarvertíð og hráefnið í upphafi vertíðar lofar mjög góðu,” segir Karl Róbert.

Áfram er síldin unnin af fullum krafti í fiskiðjuverinu. Hákon EA kom í morgun með 740 tonn og Beitir NK hóf veiðar í morgun með góðum árangri.