Gullver NS í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði 73 tonnum á Seyðisfirði sl. fimmtudag eftir liðlega tveggja sólarhringa túr. Hjálmar Ólafur Bjarnason skipstjóri segir að aflinn hafi fengist á Glettinganesflakinu. “Þarna var ágæt veiði og fiskurinn var býsna góður,” segir Hjálmar.

Gullver hélt á ný til veiða að aflokinni löndun og kom til Neskaupstaðar á mánudagskvöld með fullfermi eða 116 tonn. Skipstjóri í þeirri veiðiferð var Þórhallur Jónsson og var hann sáttur við túrinn. “Við vorum um þrjá og hálfan sólarhring að veiðum þannig að það er ekki unnt að kvarta yfir aflabrögðunum. Við byrjuðum í ufsaleit með litlum árangri en síðan var veiddur þorskur í Hvalbakshallinu og Litladýpi í algerri veðurblíðu. Þarna var fínasta veiði og auðvitað er það veisla að mega einbeita sér að þorskinum. Það er núna verið að sleikja upp síðustu tonnin á kvótaárinu. Við lönduðum í Neskaupstað núna og það fer fram haffæriskoðun á skipinu, en þá er allur öryggisbúnaður um borð yfirfarinn. Einnig er verið að skipta um togvír. Ekki er gert ráð fyrir að halda til veiða á ný fyrr en á föstudag,” segir Þórhallur.