Beitir NK kom með 1100 tonn af síld til Neskaupstaðar í morgun. Ljósm. Björn Steinbekk

Beitir NK hélt til síldveiða sl fimmtudagskvöld og kom til löndunar í Neskaupstað í morgun með 1.100 tonn. Heimasíðan ræddi við Sigurð Valgeir Jóhannesson skipstjóra og spurði hvernig túrinn hefði gengið. “Við fórum út í skítaveðri og það var byrjað að veiða í brælu. Síðan fengum við hálfan góðan sólarhring þar til brældi á ný og sú bræla stóð í heilan sólarhring. Við köstuðum síðan í brælu en það var komið gott veður þegar við hífðum í nótt. Veður hafði semsagt mjög truflandi áhrif á veiðarnar að þessu sinni. Við vorum að veiðum á Héraðsflóanum og aflinn fékkst að mestu í Syðri holunni þar. Alls voru tekin fjögur hol í túrnum. Við fengum tvisvar 360 tonn, einu sinni 200 tonn og loks 170 tonn. Það þarf að hafa fyrir því að finna síldina og hún er alltaf á mikilli ferð. Það er algjör lúxus að geta veitt hana þarna og það eru einungis um 30 mílur frá veiðistað til Neskaupstaðar. Þetta getur ekki verið mikið betra. Þetta mun allt saman mjakast í rétta átt. Framundan er leiðinlegt veður tvo næstu dagana en síðan á veðrið að batna sem betur fer,” segir Sigurður Valgeir.