Guðjón Þorkell Pálsson hóf störf á vélaverkstæðinu hjá Bergi – Hugin í Vestmannaeyjum þann 1. mars árið 1988. Guðjón verður sjötugur 15. júlí næstkomandi og lét af störfum vegna aldurs í byrjun apríl sl. “Það var erfitt að hætta og það tók mig nokkurn tíma, en ég vildi hætta áður en sumarið gengi í garð” segir Guðjón.

Alltaf nóg að gera

Guðjón Pálsson kvaddur á verkstæði Bergs-Hugins. Guðjón til vinstri og Arnar Richardsson rekstrarstjóri til hægri. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Störf Guðjóns hafa verið afar fjölbreytt í gegnum tíðina en hann er lærður vélvirki. “Ég byrjaði hjá Bergi-Hugin árið 1988 en þá hafði ég unnið í tíu ár hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Ég lærði vélvirkjun hjá Vélsmiðjunni Magna og að námi loknu hef ég starfað á vélaverkstæðum sjávarútvegsfyrirtækja. Hér áður fyrr fór ég að vísu á sjó eina og eina vertíð til að breyta til. Þegar ég byrjaði hjá Bergi – Hugin var einmitt verið að byrja að gera út frystitogarann Vestmannaey. Það var ávallt mikið af verkefnum á vinnsludekki togarans og menn þurftu að leysa hin fjölbreyttustu vandamál. Vestmannaey var gerð út sem frystitogari í heil 19 ár og ekkert Eyjaskip hefur verið gert út jafn lengi á frystingu. Að því kom árið 2005 að frystitogarinn var seldur og í stað hans komu tveir ísfisktogarar. Það breyttist mikið hjá okkur á verkstæðinu við þessi tímamót en það var alltaf nóg að gera. Fyrir utan vinnu við skipin var fengist við ýmislegt, til dæmis settum við upp loðnuhrognastöð á Seyðisfirði á sínum tíma. Ég hef verið afskaplega heppinn með vinnufélaga á verkstæðinu en þar vann ég til dæmis nánast allan tímann með Guðmundi Alfreðssyni. Þá hefur samstarfið við vélstjórana á skipunum verið einstaklega gott en það skiptir ótrúlega miklu máli fyrir fyrirtæki eins og þetta að hafa góða vélstjóra. Eins hefur sambandið við stjórnendur fyrirtækisns verið eins og best verður á kosið. Í sannleika sagt hefur gangur þessarar útgerðar verið ævintýri líkastur upp á síðkastið. Bæði Vestmannaey og Bergur hafa landað fullfermi tvisvar í viku, fiskiríið hefur verið engu líkt. Þessi skip eru afar vel heppnuð og það hefur verið skemmtilegt viðfangsefni að fást við viðhald þeirra og sinna þeim breytingum og lagfæringum sem hafa verið gerðar,” segir Guðjón.

Næg verkefni framundan

Guðjón mun hafa nægum verkefnum að sinna eftir að hafa kvatt verkstæðið hjá Bergi – Hugin. Hann hefur verið mjög virkur í félagsstörfum í Eyjum og mun halda því áfram jafnvel af meiri krafti en áður. “Ég mun hafa nóg fyrir stafni. Það eru víða verkefni sem svona kallar eins og ég geta hjálpað til við. Ég hef verið lengi í Björgunarfélaginu og ég spila golf. Þá hef ég verið í veiðifélagi sem fæst við lundaveiði. Eins er ég félagi í Akóges, sem er karlaklúbbur og góður félagsskapur. Nú er verið að stækka Akóges-húsið hér í Eyjum og þar er fullt af verkefnum. Ég haf starfað lengi fyrir ÍBV í tengslum við þjóðhátíð. Nú vinn ég við að endurbyggja grindurnar á svonefnda bekkjabíla sem hafa ekki verið notaðar í tugi ára. Bekkjabílarnir flytja fólk í Herjólfsdal og til baka í bæinn. Ég hef sko ekki áhyggjur af því að verða verkefnalaus. Það er alls staðar fullt af góðum verkefnum sem ánægjulegt er að vinna að,” segir Guðjón.

Guðjóns verður saknað

Bergur – Huginn hélt kveðjuhóf fyrir Guðjón fimmtudaginn 30. maí sl. Arnar Richardsson rekstrarstjóri sagði þar nokkur orð og lagði áherslu á mikilvægi þess starfs sem Guðjón hefur gegnt. Arnar vakti athygli á því hve verkefni Guðjóns hafa verið fjölbreytt og hve úthaldgóður hann hefði verið en starfstími hans hjá Bergi – Hugin var rúm 36 ár eða í 13.244 dagar. Arnar sagði að ávallt hefði vakið athygli hve úrræðagóður Guðjón væri. Hann hefði fundið lausnir á hinum flóknustu vandamálum. Eins fullyrti Arnar að Guðjóns yrði sárt saknað á kaffistofunni því hann væri sögumaður góður og skemmtilegur félagi. Að lokum þakkaði Arnar Guðjóni innilega framlag hans til Bergs – Hugins og samfélagsins í Eyjum.