Landað úr Gullver NS í gær. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar í heimahöfn á Seyðisfirði eftir hádegið í gær. Afli skipsins var 95 tonn, langmest ýsa. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. „Ýsuna fengum við á Papgrunni og á Lónsbugtinni. Við leituðum að þorski í Hvalbakshallinu og á Hvalbaksgrunni með heldur litlum árangri og það var leitað að ufsa í Berufjarðarál með enn minni árangri. Það var heldur kaldur sjór á þessum slóðum og ljóst að þorskurinn hefur fært sig eitthvað annað. Ufsinn hefur hins vegar lengi verið okkur erfiður. Það var kaldaskítur nánast allan túrinn en þó ekki mikil alda. Síðan lægði í lok túrsins. Menn eru bara ágætlega sáttir við þennan túr en við vorum um fjóra sólarhringa að veiðum. Ráðgert er að halda til veiða á ný í kvöld en óvíst er hvar verður veitt í næsta túr. Við sjáum bara til,“ segir Hjálmar Ólafur.