Wojciech Blaszkowski

Í nýútkominni samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar eru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þeirra munu birtast hér á heimasíðunni og hér birtist viðtal við Wojciech Blaszkowski starfsmann í fiskiðjuverinu í Neskaupstað.

Wojciech Blaszkowski hefur starfað lengi í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Áður en hann kom til Íslands bjó hann í bænum Tczew í Póllandi sem er 60 þúsund manna bær um 30 kílómetra frá borginni Gdansk. Í Tczew starfaði Wojciech í verksmiðju sem framleiddi gasmæla, viftur og fleiri tæki. Þegar Wojciech er beðinn um að rifja upp komu sína til Íslands í upphafi brosir hann. „Það var verið að endurbyggja Börk NK í Gdansk árið 1997 og Karl Jóhann Birgisson hafði umsjón með því verki. Ég frétti að Karl Jóhann væri að skima eftir fólki til að koma til starfa á Íslandi og mér þótti það spennandi. Ég ræddi við Karl Jóhann og hann upplýsti að hann væri að leita að um það bil 10 manns til að starfa í nýju fiskiðjuveri. Ég ákvað að slá til og fljótlega lagði hópurinn af stað til Íslands. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fór frá Póllandi. Við komum til Neskaupstaðar í niðamyrkri og fengum inni í húsinu Stjörnunni. Við vöknuðum spennt morguninn eftir til að skoða umhverfið. Þá sáum við fallegan bæ, fallegan fjörð og háu tignarlegu fjöllin allt um kring. Þetta var einstök fegurð og við sögðum bara vá.“

Næst er Wojciech spurður um starfið hjá Síldarvinnslunni. „Þegar við komum var síldarvertíð að hefjast og megnið af síldinni sem starfsfólk fiskiðjuversins tók á móti fór til söltunar. Það var saltað í tunnur en ekki mikið fryst. Síðar átti það eftir að breytast og síldin var fryst rétt eins og loðnan og makríllinn. Ég var strax mjög ánægður í starfi hjá Síldarvinnslunni. Fiskiðjuverið var afar tæknivætt og þarna kynntist ég afskaplega góðu fólki sem vildi allt fyrir mann gera. Mér leið strax vel í Neskaupstað og einnig í vinnunni. Það hefur verið gaman að fylgjst með þróuninni hjá Síldarvinnslunni. Þar er um að ræða framsækið fyrirtæki sem ávallt er tilbúið að innleiða það sem er nýjast og best. Nú eru 27 ár liðin síðan ég hóf störf hjá Síldarvinnslunni og ég hef verið í Neskaupstað allan þann tíma að undanskildum tveimur árum þegar ég aðstoðaði bróður minn sem var mikið veikur. Ég fer á sumrin til Póllands til að hitta fólkið mitt og eins fer ég þangað alloft um jól en staðreyndin er sú að mér finnst alltaf gott að koma til baka til Neskaupstaðar og byrja að vinna á ný. Þá vil ég líka nefna sundlaugina í Neskaupstað sem ég sæki reglulega. Ég elska sund og það er frábært að slappa af í lauginni eftir stífan vinnudag með góðu fólki.“