Bergur VE heldur til veiða. Ljósm. Björn Steinbekk

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu í heimahöfn í Vestmannaeyjum í gær að afloknum fyrsta túr eftir sjómannadag. Bæði skip voru að veiðum á Ingólfshöfða en þar var afli mjög misjafn. Vestmannaey landaði 66 tonnum af blönduðum afla og Bergur um 30 tonnum. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að þeir hafi fengið góðan afla af og til en þess á milli hafi hann verið mjög fátæklegur. “Við vorum allan tímann á Ingólfshöfða en tókum þó eitt hol í Skarðsfjörunni í lokin. Það má segja að veðrið hafi verið blíða og bræla. Stundum var nánast logn en svo rauk hann upp og fór allt upp í 36 metra. Aflinn er mjög blandaður, mest af þorski en líka dálítið af löngu og steinbít og mörgum fleiri tegundum. Við rákumst á bletti sem gáfu fisk en víða var lítið að hafa,” segir Birgir Þór.

Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, var ekki sáttur við aflabrögðin. “Við hittum ekki á þetta núna, en stundum er þetta þannig. Tíminn á miðunum var líka stuttur eða innan við tveir sólarhringar. Okkur gekk illa að finna einhvern fisk að ráði en þetta verður bara betra næst. Aflinn er alger blanda,” segir Ragnar.

Bæði skip héldu á ný til veiða í gær að löndun lokinni. Er stefnt að því að veiða fyrir austan land.