Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu fullfermi í Eyjum í dag, Ljósm. Arnar Richardsson

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í Eyjum í morgun. Að lokinni afar góðri vertíð hefur nú verið hægt á veiðinni hjá báðum skipum. Heimasíðan ræddi við skipstjórana og spurði þá hvar hefði verið veitt og hvernig aflinn væri samansettur. Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að nú væri veitt fyrir austan. “Við fengum aflann á Papagrunni og tókum tvo hol í Berufjarðarál í leit að ufsa án teljandi árangurs. Aflinn var að mestu leyti ýsa og síðan dálítill þorskur með. Það var ævintýraleg veiði á vetrarvertíðinni og uppistaðan í veiðinni var þorskur. Nú verða menn að einbeita sér að öðrum tegundum,” segir Egill Guðni.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, tók undir með Agli og sagði að hin mikla þorskveiði á vertíðinni hefði það í för með sér að nú þyrftu menn að leggja áherslu á aðrar tegundir. “Við vorum fyrir austan á sömu slóðum og Vestmannaey og aflinn var mest ýsa, dálítið af þorski og smotterí af ufsa. Það var fínasta veður allan túrinn nema á heimleiðinni, þá fengum við bræluskít. Nú verður hægt verulega á veiðinni hjá okkur, en það hlaut að gerast eftir vertíðina sem var rífandi góð,” segir Jón.

Vestmannaey og Bergur munu væntanlega halda á ný til veiða á fimmtudaginn og verður það líklega síðasti túr skipanna fyrir sjómannadagshelgi.