Komið í land að lokinni siglingu á Blængi NK. Ljósm. Páll Freysteinsson

Síldarvinnslan færði björgunarsveitunum Ísólfi á Seyðisfirði og Gerpi í Neskaupstað björgunarvesti fyrir börn að gjöf nú fyrir sjómannadaginn. Notkun vestanna hófst nú um sjómannadagshelgina þegar börnum bauðst að fara í vesti fyrir hina árlegu hópsiglingu skipanna. Björgunarsveitafólk klæddi börnin í vestin á bryggjunni áður en haldið var í hópsiglinguna og tók síðan á móti vestunum að siglingu lokinni. Páll Freysteinsson, öryggisstjóri Síldarvinnslunnar segir að með þessu vilji Síldarvinnslan og björgunarsveitirnar leggja áherslu á að hugað sé að öryggismálum þegar haldið er í sjóferð og brýnt sé að börn skynji strax að hafa þurfi öryggi í öndvegi. Þá segir Páll að ljóst sé að bæta þurfi við vestum enda vildu nánast öll börnin nota þau. Vestin eru fyrir börn á aldrinum 4 – 12 ára.

Björgunarsveitarfólk á Seyðisfirði klæða börn í björgunarvesti fyrir siglingu Gullvers NS. Ljósm. Ómar Bogason