Nemendur Sjávarútvegsskólans í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson

Rætur Sjávarútvegsskóla unga fólksins eru í Neskaupstað. Árið 2013 kom Síldarvinnslan skólanum á fót og nefndist hann þá Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar. Mörgum fannst skólastarfið þarft og breiddist starfsemin út . Nafn skólans tók breytingum í samræmi við það. Um tíma hét hann Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar og síðar Sjávarútvegsskóli Austurlands. Árið 2016 hóf Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri að annast skólahaldið og þá var skólinn nefndur Sjávarútvegsskóli unga fólksins. Frá því að Sjávarútvegsmiðstöðin tók við skólanum hefur starfsemi hans breiðst út um landið og alls staðar fer námið fram í samstarfi við sjávarútvegsfyrirtæki og vinnuskóla sveitarfélaganna en skólinn er í boði fyrir 14 ára unglinga.

Nemendur Sjávarútvegsskólans á Seyðisfirði ásamt umsjónarmönnum skólans, Katrínu Axelsdóttur og Kristiönnu Arnardóttur. Myndin er tekin um borð í Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason

Upp á síðkastið hefur Sjávarútvegsskólinn starfað á Austfjörðum og hefur hann verið í samstarfi við Síldarvinnsluna bæði á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Hafa nemendurnir verið fræddir um starfsemi fyrirtækisins og skoðað bæði skip og vinnslustöðvar. Umsjónarmenn skólahaldsins í ár eru sjávarútvegsfræðingarnir Katrín Axelsdóttir og Kristianna Arnardóttir og hitti heimasíðan þær að máli. Fyrst var spurt hve víða væri kennt þetta árið. Þær sögðust annast kennsluna á Austfjörðum og einnig á Húsavík. Þorlákshöfn og Ísafirði. Aðrir sæju hins vegar um kennslu á öðrum stöðum eins og í Reykjavík, Akureyri, Sauðárkróki, Hornafirði og á Snæfellsnesi. Fyrir austan hefur kennsla þegar farið fram á Vopnafirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði. Nú er kennt í Neskaupstað og síðan á skólinn eftir að starfa á Eskifirði. Alls staðar hafa áhugasamir og skemmtilegir nemendur sótt skólann að sögn þeirra Katrínar og Kristiönnu.

Þær Katrín og Kristianna segja að afar ánægjulegt sé að starfa við Sjávarútvegsskólann. Í skólanum sé farið yfir fjölbreytt efni og síðan er farið í heimsóknir í vinnslustöðvar og um borð í skip. Þá séu tengd fyrirtæki einnig heimsótt eins og veiðarfæragerðir. Nú mun vera til umræðu að bjóða í framtíðinni einnig upp á Fiskeldisskóla unga fólksins en sums staðar á landinu væri mjög viðeigandi að bjóða ungu fólki upp á fræðslu um þá atvinnugrein.