Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason

Gullver NS landaði í heimahöfn á Seyðisfirði sl. sunnudag. Skipið var með góðan afla og heyrði heimasíðan í Þórhalli Jónssyni skipstjóra og spurði út í aflabrögðin. „Þetta voru 122 tonn þannig að skipið var troðfullt. Mest af aflanum var ýsa eða 60 tonn og síðan voru 40 tonn af þorski. Minna var af öðrum tegundum. Við fengum mest af ýsunni á Barðinu svokallaða ofarlega í Berfjarðarálnum en þorskinn fengum við í Hvalbakshallinu. Það fékkst betri ýsa á Barðinu en annars staðar þar sem við reyndum fyrir okkur en annars virðist vera ýsa mjög víða. Í túrnum var reynt við ufsa á nokkrum stöðum en eins og svo oft áður var árangurinn lítill. Það var fínasta veður allan túrinn. Það virðist vera komið sumar hérna fyrir austan og það er afskaplega gott. Nú er komið að sjómannadagsstoppi hjá okkur og það verður ekki haldið á ný til veiða fyrr en á mánudag,“ segir Þórhallur.