Gullver NS í ólgusjó. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í morgun að lokinni stuttri veiðiferð. Afli skipsins var 82 tonn, nánast eingöngu þorskur og ýsa. Heimasíðan ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði fyrst út í veðrið. “Veðrið hefði svo sannarlega mátt vera betra. Við vorum innan við tvo sólarhringa að veiðum og til að byrja með var veðrið snarvitlaust en það dúraði þó alltaf annað slagið. Það er erfitt að fást við þetta þegar menn standa varla í lappirnar. Við vorum allan tímann að veiðum á Breiðdalsgrunni, ofan við Kransinn svonefnda. Miðað við aðstæður gekk bara nokkuð vel að fiska og menn eru bara hressir. Gullver heldur á ný til veiða í kvöld og vonandi mun veðrið batna á næstu dögum,” segir Þórhallur.