Bergur VE á landleið. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í Vestmannaeyjum í morgun. Afli skipanna var fyrst og fremst ýsa sem fékkst að mestu fyrir austan land. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að veiðin hafi gengið nokkuð vel. “Við byrjuðum túrinn við Ingólfshöfða, tókum þar eina sköfu. Síðan vorum við mest á Undirbyrðahrygg og Papagrunni. Á landleiðinni tókum við síðan tvö hol á Höfðanum, eitt í Skarðsfjörunni og enduðum á Víkinni. Það gekk vel að ná ýsunni í birtunni fyrir austan og það var töluvert af skipum þar. Það voru rúmir tveir sólarhringar á veiðum í túrnum og ekki annað hægt en að vera þokkalega sáttur. Nú á Vestmannaey að fara í karfatúr og það verður látið úr höfn fljótlega að löndun lokinni,” segir Birgir Þór.

Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, var ánægður með túrinn. “Við héldum beint á Papagrunn og fengum þar góðan ýsuafla. Ennig var ágæt veiði við Barðið í Berufjarðarálnum. Það var blíðuveður allan túrinn Við munum ekki halda til veiða á ný fyrr en á fimmtudag. Nú tökum við einungis einn túr á viku,” segir Ragnar.