Síldveiðarnar ganga vel hjá Berki NK. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Börkur NK kom til Neskaupstaðar í fyrrinótt með tæp 1.700 tonn af norsk – íslenskri síld. Vinnsla á aflanum hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar síðdegis í gær þegar lokið var við að vinna síld úr Beiti NK. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóra á Berki, og spurði fyrst hvar veitt hefði verið. „Við fengum aflann innarlega á Héraðsflóanum. Hann fékkst í fimm holum og voru 350 – 400 tonn í hverju holi. Dregið var í tvo og hálfan til þrjá tíma. Þetta gekk býsna vel enda vorum við einungis tæplega 30 tíma á miðunum. Þetta er fínasta síld sem hentar vel til vinnslu en 15 – 20% af aflanum er íslensk sumargotssíld. Þessi veiðiskapur gerist ekki þægilegri enda þurfum við ekki að fara nema um 30 mílur að heiman á síldarmiðin. Þarna er töluvert af síld á ferðinni og hún er mest á Héraðsflóanum og norður í Bakkaflóa. Það hefur lítið verið leitað sunnar en undanfarin ár hefur síldin fært sig sunnar þegar á líður. Veiðarnar hófust heldur fyrr núna en undanfarin ár en þær hafa gengið afar vel. Nú er hins vegar bræla á miðunum og ég held að ekkert skip sé úti. Það verður líklega bræla fram á föstudag,“ segir Hjörvar.