Anna og Barbara fá frí eftir hádegi í tilefni dagsins. Ljósm: Hákon ErnusonAnna og Barbara fá frí eftir hádegi í tilefni dagsins. Ljósm: Hákon ErnusonKvenréttindaárið mikla var 1911 en þá var lagt fyrir Alþingi stjórnarskrárfrumvarp sem fól í sér kosningarétt og kjörgengi kvenna. Lítið var um andstöðu kröfunnar og var frumvarpið því samþykkt.  Það hlaut þó ekki staðfestingu konungs og tafði einkum sambandsmál Íslands og Danmerkur fyrir því.  Nýtt stjórnskrárfrumvarp var svo samþykkt frá Alþingi árið 1913 um að konur og hjú skyldu hafa náð fertugsaldri þegar þau fengu kosningarétt og kjörgengi.  Þá var ákvæði í frumvarpinu um að kosningaaldurinn skyldi lækka um eitt ár árlega þar til hann yrði 25 ár líkt og hjá körlum. Kristján X konungur staðfesti svo stjórnarskrána 19. júní 1915 og þar með fengu íslenskar konur 40 ára og eldri langþráðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis
 
Í tilefni þess að á morgun, föstudaginn 19 júní, eru 100 ár liðin frá því að þessi viðburður átti sér stað veitir Síldarvinnslan hf. öllum konum er starfa hjá félaginu og tengdum félögum frí frá hádegi. Þá hvetur Síldarvinnslan hf. alla til að taka þátt í hátíðarhöldunum á morgun. 
 
Í tilefni dagsins er vert að vekja athygli á örþáttum um stórar og stefnumarkandi atburði sem tengjast sögu íslenskra kvenna og baráttu þeirra fyrir samfélagslegu jafnrétti. Örþættina má horfa á í Sarpi RÚV á slóðinni: http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/oldin-hennar/20150614