Sl. vor hófu Síldarvinnslan hf. og Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) samstarf með það fyrir augum að örva íbúðabyggingar í Neskaupstað. Mikill húsnæðisskortur hefur verið í bænum og vildu fyrirtækin leggja sín lóð á vogarskálina ef það yrði til þess að íbúðabyggingar hæfust. Rætt var við nokkur byggingafyrirtæki og á endanum varð úr að efnt var til samstarfs við fyrirtækið Hrafnshól sem hafði kynnt fyrir Síldarvinnslunni og SÚN spennandi lausn. Á endanum var gerður samningur um byggingu 16 íbúða í tveimur húsum í svonefndri Vík og var samningurinn undirritaður í júlímánuði sl. Hér er um að ræða svonefnd módulhús sem hafa þann ótvíræða kost að byggingartími er skammur. Að samningnum kom einnig leigufélagið Brák sem kaupir fjórar af íbúðunum 16. Hér er rétt að geta þess að mikið líf hefur færst í húsbyggingar í Neskaupstað síðustu mánuði og nú eru hátt í 30 íbúðir í byggingu í bænum að umræddum 16 íbúðum meðtöldum.
Sl. mánudag kom færeyska skipið Eystnes siglandi frá Eistlandi með módulhúsin en þau voru flutt til landsins í 24 lokuðum einingum. Húsin, sem byggð verða við Hafnarbraut 38 og 40, eru sterkbyggð og sérstaklega hönnuð fyrir norðlægar slóðir. Hús af þessari gerð voru fyrst reist í Norður-Noregi og þar þurftu húsin að uppfylla svonefndan TEC-17 byggingarstaðal sem er mun strangari en íslensk byggingarreglugerð. Þegar hinum svonefndu módulum hefur verið raðað saman eru íbúðirnar nánast tilbúnar. Að sjálfsögðu þarf að gera sökkla fyrir húsin og er ráðgert að hefja það verkefni strax eftir áramót. Áður en vinna við sökklana hefst þarf að færa og endurnýja lagnir sem eru á byggingarstað. Vonandi helst veður sæmilegt í janúarmánuði svo vinnan við sökklana gangi vel.
Hér verður getið um nokkur mikilvæg atriði varðandi húsin:
- Íbúðirnar eru framleiddar í verksmiðju Timbeco Woodhouse í Eistlandi. Öll vinna við smíðina fer fram innanhúss við bestu aðstæður. Framleiðslan er ISO-9001 vottuð.
- Húsin eru afar vel einangruð og tryggir einangrunin að kyndingarkostnaður er lár og hljóðvist með besta móti.
- Burðarvirki útveggja eru 195mm auk 50mm einangrunar í rafmagnsgrind eða samtals 245mm. Samkvæmt íslenskri reglugerð skal einangrun í útveggjum vera 120mm.
- Veggir á milli íbúða eru samtals 240mm að þykkt og er lofthol á milli veggja til að hindra að hljóð berist á milli íbúða.
- Gólf jarðhæðar og þök eru með 350mm burðarbitum og einangrun í sömu þykkt. Á milli hæða er 390mm burðarviðir og einangrun í sömu þykkt.
- Brunavarnir eru mjög öflugar. Veggir íbúða hafa 90 mínútna brunaþol og eru víðast klæddir tvöföldu brunagifsi. Auk þess eru húsin varin með að utan með eldvarnargrunni undir yfirborðsmálningu.
- Íbúðirnar eru fullmálaðar, harðparket á gólfum og uppsett nútímaleg eldhús með helstu tækjum; helluborði, blástursofni, uppþvottavél og ísskáp. Baðherbergi eru einnig fullfrágengin. Þau eru með vegghengdu salerni, innréttingu og sturtugleri.
- Kynding íbúðanna er með gólfhitakerfi. Stýringar eru á veggjum þar sem unnt era ð stjórna hitastigi.
- Loftskiptikerfi er í íbúðunum sem tryggir að í þeim helst jafnt hitastig og rétt rakastig.
Með þessum módulhúsum er verið að stíga athyglisvert skref í sögu húsbygginga hér á landi en þau eiga fáa sína líka hvað varðar gæði á forsmíðuðum húsum.
Í næstu viku verður nánar fjallað um húsin tvö í Víkinni hér á heimasíðunni og meðal annars gefið upp verð á þeim íbúðum sem Síldarvinnslan og SÚN munu bjóða til sölu. Íbúðunum hefur verið sýndur mikill áhugi og er fyrirhugaður sérstakur kynningarfundur fyrir alla áhugasama (skráning á fund hjá Guðmundi gsm 893-3234).